UNESCO Menntun
Menntun
Ísland leggur áherslu á:
– Að tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun
– Framkvæmd Heimsmarkmiðs 4 um menntun, og forystu UNESCO á því sviði
Stefna UNESCO á sviði menntunar markast af því að menntun allra sé lykilþáttur í þeirri viðleitni að efla frið í heiminum, útrýma fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun. UNESCO er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur það umboð að vinna að öllum þáttum menntunar og hún ber þannig ábyrgð á framkvæmd Heimsmarkmiðs 4, menntun fyrir alla, sem snýst um að tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi. Stofnunin hefur verið í forystuhlutverki í menntamálum bæði á alþjóðavísu og svæðisbundið, ekki síst fyrir tilstuðlan frumkvæðis og samvinnu aðildarríkja stofnunarinnar við gerð alþjóðasamninga á sviði menntunar. UNESCO styrkir menntakerfi um heim allan og tekur forystu í því að finna lausnir á alþjóðlegum áskorunum á sviði menntamála með jafnrétti kynjanna að leiðarljósi.
Á menntasviði UNESCO eru eftirtaldar stofnanir:
– UNESCO International Bureau of Education (IBE)
– UNESCO International Institute for Educational Planning (IIEP)
– UNESCO Institute for Lifelong Learning (UIL)
– UNESCO Institute for Information Technologies in Education (IITE)
– UNESCO International Institute for Capacity-Building in Africa (IICBA)
– UNESCO International Institute for Higher Education in Latin America and the Caribbean (IESALC)
– Mahatma Gandhi Institute of Education for Peace and Sustainable Development (MGIEP)
UNESCO starfrækir einnig 19 samstarfsáætlanir á sviði menntunar, m.a. um menntun og jafnrétti, læsi, heilbrigði og velferð, upplýsingatækni og menntun, stefnumótun á sviði menntunar, menntun til sjálfbærni og heimsborgaravitundar og menntun og færni á sviði tækni- og starfsmenntunar, svo nokkrar þeirra séu nefndar.
UNESCO hefur sett á fót þrjú samstarfsnet á sviði menntunar og er net UNESCO-skóla (Associated Schools Network) hið umfangsmesta þeirra en í því eru alls 11.500 skólar í 182 löndum, þ.m.t. nokkrir skólar á Íslandi.
Á vegum UNESCO starfar öflugt samstarfsnet háskóla um allan heim (UNITWIN network) og einnig hefur 731 háskólaprófessor um heim allan hlotið UNESCO-viðurkenningu (UNESCO Chairs).
UNESCO veitir árlega nokkur verðlaun af ýmsum toga á sviði menntunar og rekur einnig 18 sérhæfð verkefni á sviði menntunar, t.d. Malala-menntasjóðinn til styrktar stúlkum.
Menntun innflytjenda og flóttamanna er eitt af forgangsatriðum UNESCO en önnur slík eru m.a. lýðræðismenntun og heimsborgaravitund (e. global citizenship) og læsi í víðum skilningi. CapED-menntasjóðurinn var stofnsettur árið 2003 og var Ísland meðal stofnaðila hans. Sjóðurinn hefur styrkt verkefni í 40 löndum með áherslu á þróunarlönd og lönd í viðkvæmri stöðu. Sjóðurinn vinnur samkvæmt Heimsmarkmiði 4 um menntun og er sérstök áhersla lögð á jafnrétti og að efla menntun stúlkna og kvenna.
UNESCO tengist einnig 11 menntamiðstöðvum (Category 2 Centres) víða um heim. Af þeim má t.d. nefna alþjóðamiðstöð í Burkina Faso fyrir menntun stúlkna og kvenna í Afríku.
Helstu samningar UNESCO á sviði menntamála:
– Lissabon-samningurinn um viðurkenningu á menntun og hæfi á æðra skólastigi í Evrópu (1997)
Auk ofangreindra samninga hefur UNESCO gert fjölda svæðisbundinna samninga um viðurkenningu á menntun og hæfi á æðra skólastigi og samþykkt fjölda tilmæla á sviði menntunar. Sjá hér.