Starfsreglur

UNESCO Starfsreglur UNESCO nefndar

1. gr.

Íslenska UNESCO-nefndin er stofnuð í samræmi við VII. kafla stofnskrár Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization – UNESCO).

2. gr.

Hlutverk nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands á aðalráðstefnuUNESCO til ráðuneytis í málum er varða UNESCO og tengiliður milli UNESCO og íslenskra mennta-, vísinda- og annarra menningarstofnana.

3. gr.

Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni UNESCO á Íslandi og hefur samvinnu við aðrar íslenskar nefndir sem starfa að málefnum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra.

4. gr.

Nefndin getur að eigin frumkvæði tekið til meðferðar hvert það verkefni sem telja má í verkahring UNESCO og brýtur ekki í bága við ákvarðanir og stefnu Íslendinga í utanríkismálum.
Þegar nefndin fjallar um önnur mál en þau sem einungis varða UNESCO, má einnig kveðja á fund aðila sem ekki eiga sæti í nefndinni.

5. gr.

Menntamálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára að undanteknum fulltrúa um málefni ungs fólks sem skal skipaður til tveggja ára.
Formaður, ritari og fjórir nefndarmenn að auki skulu skipaðir án tilnefningar, en þess skal jafnan gætt að einn þeirra sé sérfróður um skólamál, annar um vísindi, þriðji um menningarmál, fjórði um fjölmiðlun og upplýsingamál og fimmti um málefni ungs fólks.
Einn nefndarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytisins.
Ráðherra getur, með samþykki utanríkisráðuneytisins, breytt fjölda nefndarmanna.

6. gr.

UNESCO-nefndin má leita aðstoðar sérfræðinga í einstökum málum og einnig er henni heimilt að kjósa sérnefndir og fela þeim að annast athugun og meðferð mála, þegar henta þykir.

7. gr.

Ritari nefndarinnar er starfsmaður menntamálaráðuneytisins.

8. gr.

Skipun sendinefndar Íslands á aðalráðstefnu UNESCO heyrir undir utanríkisráðuneytið.

9. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 34 frá 17. janúar 1990 og óbirtar reglur frá 3. október 1997.

Menntamálaráðunneytinu, 18. febrúar 2003.

 

Tómas Ingi Olrich

Guðmundur Árnason

EN / IS