Minni heimsins

UNESCO Minni heimsins

Árið 1992 setti UNESCO á fót áætlunina Minni heimsins (Memory of the World) með það að meginmarkmiði að hvetja til varðveislu og aðgengis að dýrmætum menningararfi sem geymdur er í skjalasöfnum, kvikmyndasöfnum og bókasöfnum víða um heim. Skrá UNESCO um Minni heimsins (Memory of the World Register) var stofnuð í kjölfarið árið 1995. Tilgangur þessa varðveislulista er að vekja athygli á mikilvægum andlegum menningararfi heimsins með því að útnefna þar einstaka hluti eða söfn sem hafa sérstakt varðveislugildi. Sýn UNESCO í þessu verkefni er einföld en um leið mögnuð: að menningararfur heimsins sé almenningseign sem beri að varðveita og gera aðgengilegan öllum. Að teknu tilliti til menningarbundinna sérkenna og siðareglna skuli leitast við að gera þennan arf aðgengilegan án hindrana.

Mörg lönd hafa skipað sérstakar landsnefndir sem bera ábyrgð á kynningu á Minni heimsins og velja mikilvæg gögn á sérstaka skrá hvers lands. Slíkar landsskrár hafa orðið til þess að vekja áhuga á fjölbreytni menningararfsins. Landsnefnd Íslands um Minni heimsins var skipuð síðla árs 2012 í þeim tilgangi að kynna Minni heimsins og efna til Landsskrár Íslands.

Skrá UNESCO um Minni heimsins nær til margs konar skráningar og verkefna sem taka mið af mikilvægi og áhrifum hverrar heimildar. Þær skrár sem skipta Ísland máli eru:

Heimsskrá (International Register)

Geymir menningararf sem hefur víða skírskotun og mikið alþjóðlegt gildi. Aðalstöðvar UNESCO varðveita þessa skrá. Minni heimsins heimsskrá

 

Landsskrá Íslands (Iceland‘s National Register)

Nær yfir menningararf sem er sérstaklega mikilvægur fyrir Ísland. Skráin er varðveitt af Íslensku UNESCO-nefndinni. Minni heimsins landsskrá Íslands.

 

Handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og Kaupmannahöfn og manntalið frá 1703 hafa verið tekin inn á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins til marks um mikilvægi þeirra fyrir heimsbyggðina alla.