MÁLAFLOKKAR

UNESCO Málaflokkar

Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Starfsemi UNESCO skiptist í grófum dráttum í fjóra þætti eða svið, en þau eru:

1) Menntun

2) Menning

3) Náttúra og vísindi

4) Fjölmiðlar

 

Þá hafa verið skilgreind eftirfarandi sérstök áherslusvið stofnunarinnar:

Heimsáherslur : Afríka, jafnréttismál.

Áhersluhópar : Frumbyggjar, ungmenni, þróunarlönd meðal smáeyríkja (​SIDS ​ ), fátækustu ríki heims.

Áherslumálefni: ​ Menntun í þágu betri heilsu og vellíðunar, framkvæmd Heimsmarkmiða SÞ.

 

Líkt og hjá öðrum alþjóðastofnunum er framkvæmd Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru á allsherjarþingi SÞ árið 2015 (Agenda 2030) rauður þráður í öllu starfi stofnunarinnar. UNESCO ber meginábyrgð á eftirfylgni Heimsmarkmiðs 4 um menntun, en hefur jafnframt mikilvæga aðkomu að eftirfylgni annarra Heimsmarkmiða. Annar rauður þráður og eitt af meginverkefnum UNESCO er t.a.m. að leiða alþjóðlega samvinnu í þeirri viðleitni að tryggja öllum gæðamenntun. Þá hefur UNESCO forystu um verndun náttúruarfs og menningarminja. UNESCO er sú stofnun SÞ sem hefur sérstakt umboð til að efla frelsi hugmynda í orði og myndmiðlun og vinnur að því að treysta tjáningarfrelsi og fjölbreytileika fjölmiðla – þ.m.t. prentmiðla, ljósvakamiðla og netmiðla. UNESCO vinnur þannig m.a. að eflingu tjáningarfrelsisins og öryggi fjölmiðlafólks. Einnig leggur UNESCO mikla áherslu á menningarlega fjölbreytni sem lið í að styrkja samfélög og auka lífsgæði. Mikilvægi alþjóðasamskipta, samvinnu þjóða og menningarsvæða á sem flestum sviðum, getur skipt sköpum við að viðhalda friði og öryggi á heimsvísu. Þar eru málaflokkar UNESCO og grundvallarumboð stofnunarinnar ekki undanskilið.