Samskipti

UNESCO Samskipti og fjölmiðlar

Ísland leggur áherslu á:

– Tjáningarfrelsi og fjölbreytta miðlun upplýsinga
– Öryggi fjölmiðlafólks

 

Vefur UNESCO um samskipti og upplýsingar

UNESCO hefur sérstakt umboð til að efla frelsi hugmynda í orði og myndmiðlun og starfar að því að tryggja tjáningarfrelsi og fjölbreytileika fjölmiðla – þ.m.t. prentmiðla, ljósvakamiðla og netmiðla. UNESCO vinnur þannig m.a. að eflingu tjáningarfrelsis og öryggi fjölmiðlafólks og leitast við að tryggja lýðræði og gagnsæi, en það starf tengist beint Heimsmarkmiðum SÞ, einkum markmiði 4 um menntun, markmiði 10 um aukinn jöfnuð og markmiði 17 sem varðar samvinnu um framkvæmd Heimsmarkmiðanna. UNESCO hefur lagt áherslu á að við lifum á tímum byltingar í upplýsingatækni, þar sem aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið greiðara og meira, en um leið er sífellt flóknara að greina kjarnann frá hisminu í öllu upplýsingastreyminu, þar sem jafnauðvelt er að dreifa röngum staðreyndum og réttum.

UNESCO hefur staðið að fjölda verkefna og viðburða og gefið út fræðsluefni til að efla fjölmiðlalæsi og menntun fjölmiðlafólks. Sérstök fjölmiðlaverkefni sem styðja við tjáningarfrelsi og fjölbreytta fjölmiðlun geta fengið styrki frá svonefndri Alþjóðlegri áætlun um þróun samskipta (​International Programme for the Development of Communication ​ , IPDC), sem einnig styrkir menntun fjölmiðlafólks.

Í stjórn IPDC sitja 39 aðildarríki UNESCO og hefur framkvæmdastjóri UNESCO allt frá árinu 2008  annð hvert ár skilað til stjórnarinnar skýrslu um öryggi fjölmiðlafólks og hættu á refsileysi þeirra sem ráðast gegn fjölmiðlafólki.

Einn af stærstu viðburðum UNESCO á hverju ári er Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis (​World Press Freedom Day) sem haldinn er 3. maí og verður í ár haldinn í Eþíópíu, en flest aðildarlönd UNESCO minnast dagsins með einum eða öðrum hætti.