05/06/2023by Gummi

Bein útsending frá málþinginu Gervigreind, siðferði og samfélag

Frá 13 til 16:30 í dag fer fram málþing í Veröld – Húsi Vigdísar undir yfirskriftinni Gervigreind, siðferði og samfélag. Málþingið er á vegum landsnefndar UNESCO í samvinnu við Háskóla Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Sýnt verður frá viðburðinum í streymi og verður hægt að fylgjast með útsendingunnií spilaranum hér.

Í nóvember 2021 samþykktu 193 aðildarríki á aðalráðstefnu UNESCO Tilmæli um siðferði gervigreindar, þar sem mörkuð voru, í fyrsta sinn, alþjóðlega viðurkennd siðferðileg viðmið um þróun og nýtingu gervigreindartækni og lagður grunnur að leiðarvísi fyrir ábyrga stefnumótun um efnið.

Tilmælin hafa það meginmarkmið að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn og stuðla að því að hin nýja tækni verði notuð í þágu alls mannkyns. Á málþinginu verður velt upp margvíslegum spurningum um gervigreind, siðferði og samfélag.

Rýnt verður í hvernig gervigreindin er að ryðja sér rúms á öllum sviðum samfélagsins, jafnt á vinnumarkaði sem í háskólastarfi og spurt verður hvernig stjórnvöld, háskólar og atvinnulíf geti brugðist við þeirri þróun.

Dagskrá:

13.00 – 13.10 Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, setur málþingið

13.10 – 13.20 Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytur ávarp

13.20 – 13.40 Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnisstjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands – Gervigreind, mannlegt siðferði: Raunverulegar áskoranir

13.40 – 14.00 Yngvi Björnsson, prófessor við Tölvunarfræðideild HR –
Útskýranleg gervigreind: hvað er það og hvers vegna?

14.00 – 14:20 Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands – Notkun gervigreindar við stjórnun og nýráðningar: Áskoranir samtímans

Kaffi

14.40 – 14.55 Hafsteinn Einarsson, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands – Hagnýting á gervigreind í kennslu.

14.55 – 15:10 Sigyn Jónsdóttir, CTO hjá Empower – Að samtvinna gervigreind og fjölbreytileika

15:10 – 15.25 Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar – Persónuvernd og gervigreind

15:25 Pallborð með þátttöku fyrirlesara, Páls Ásgeirs Guðmundssonar, forstöðumanns efnahags- og samkeppnishæfnisviðs SA, Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, og Kolbrúnar Halldórsdóttur, formanns BHM.

16:00 – 16:15 Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, flytur lokaorð