17/02/2023by Gummi

Rakarastofuviðburður í UNESCO

Fastafulltrúar ríkja í framkvæmdastjórn UNESCO komu saman í vikunni á rakarastofuviðburð í París í boði fastanefndar Íslands. Tilgangur rakarastofuviðburða er að veita þátttakendum af öllum kynjum, en þó sérstaklega karlmönnum, vettvang og tól til að ræða kynjamisrétti og stuðla að kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi.

Auðbjörg Halldórsdóttir, fastafulltrúi Íslands, bauð gesti velkomna og flutti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, myndbandsávarp. Begoña Lasagabaster, skrifstofustjóri UNESCO um kynjajafnrétti, opnaði ráðstefnuna formlega. Til máls tóku svo Dr. Thomas Brorsen Smidt frá Jafnréttisskóla GRÓ, Dr. Gary Barker, forstjóri Equimundo, og Auður Edda Jökulsdóttir, sérstakur erindreki Íslands um jafnréttismál. Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri Social and Human Sciences skrifstofu UNESCO, flutti lokaávarp.

Líflegar umræður spruttu upp í vinnustofum fastafulltrúa þar sem þeir skiptust á skoðunum um áhrif viðtekinna viðmiða samfélagsins um hlutverk kynjanna á þeirra líf. Ásdís Ólafsdóttir, höfundur verkfærakistunnar fyrir rakarastofuviðburði (Barbershop Toolbox) leiddi umræður um niðurstöður vinnustofanna og hugsanlegar lausnir. Að rakarstofuviðburðinum loknum var haldin sérstök vinnustofa fyrir starfsfólk UNESCO með Dr. Gary Barker og Ásdísi Ólafsdóttur þar sem þau ræddu m.a. verkfærakistu rakarastofuviðburðanna og karlmennskuhugmyndir.

Fyrsti rakarastofuviðburðurinn var haldinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í janúar 2015 í samstarfi við UN Women í tengslum við skuldbindingar Íslands við HeforShe hreyfinguna. Síðan þá hafa þeir verið haldnir víðsvegar um heiminn, meðal annars í alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðavinnumálastofnunina, Alþjóðaviðskiptamálastofnunina og Sameinuðu þjóðunum í Genf, höfuðstöðvum NATO í Brussel, OECD í París, Alþjóðabankanum í Washington DC, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Vín og sömuleiðis í Kaupmannahöfn og Malaví.