Ávarp Irinu Bokova, Aðalframkvæmdastjóra UNESCO, í tilefni af Alþjóðlega jazzdeginum
25/04/2014
Á Alþjóðlega jazzdeginum taka jarðarbúar höndum saman í friði og sátt og deila ástríðu sinni fyrir tónlist í nafni frelsis og sköpunargleði.
UNESCO stóð í þessu skyni fyrir fyrsta Alþjóðlega jazzdeginum árið 2012 í samstarfi við Velvildarsendiherrann og jazzsnillinginn Herbie Hancock.
Jazzinn á rætur að rekja til flókinna og fjölbreyttra menningaráhrifa frá Afríku, Evrópu og Karíbahafi. Hann þróaðist í Bandaríkjunum en er nú snar þáttur í öllum samfélögum heims, er leikinn um heim allan og fólk nýtur hans hvarvetna. Þessi fjölbreytni gerir jazzinn að öflugum hvata til samræðna og skilnings. Í jazzinum hljómar barátta fyrri tíma fyrir reisn og
borgaralegum réttindum og hann er á okkar tímum snar þáttur félagslegs sjálfstæðis því hann segir sögu frelsis sem allir geta deilt.
Jazz er eitt magnaðasta tjáningarform 20. aldar og fangar nú þegar anda þeirrar 21. Á tímum breytinga og óvissu er meiri þörf fyrir jazzinn og mátt hans en nokkru sinni fyrr til þess að sameina fólk og efla virðingu þess fyrir sameiginlegum gildum. Einkum þurfa ungir karlar og konur að finna nýjar friðarleiðir sem höfða beint til hjartans. UNESCO er ætlað að styrkja það ferli og nýta sem best menningarlega fjölbreytni heimsins, meðal annars með listmenntun sem hvetur til frumleika og nýsköpunar. Jazzinn teflir fram í tónum vonum okkar og draumum um veröld þar sem virðing, tillitsemi og frelsi verða að veruleika.
Í ár stendur borgin Istanbúl fyrir helsta viðburði Alþjóðlega jazzdagsins en honum er ætlað að endurspegla einstaka sögu borgarinnar þar sem margir menningarstraumar mætast.
Deginum verður fagnað í 24 klukkustundir samfleytt um heim allan með alls kyns viðburðum allt frá Beirút til Peking og Dakar til Ríó.
Alþjóðlegi jazzdagurinn er hátíð draumsins um heim þar sem fólk nýtur hvarvetna friðar og frelsis.
Allir eru hjartanlega velkomnir !
Irina Bokova
Hressleiki og sannfæring í þakkargjörð spunans Nokkur riff í tilefni alþjóðadags jazzins
25/04/2014
Hinn alþjóðlegi dagur jazzins er kærkomið verkfæri til að halda á lofti þremur mikilvægum þáttum sem snerta hvaða tónlist sem er. Þeir eru þátttaka, uppfræðsla og þjálfun og hátíðarhöldin sjálf. Participation, Education og Celebration eins og það útleggst á ensku. Vel heppnaður tónlistarviðburður felur allt þetta í sér.
Þátttaka í tónlist er ekki bundin við að syngja eða spila á hljóðfæri heldur er sá sem heyrir ekki síður þátttakandi. Hann getur verið þátttakandi viljandi eða óviljandi, á meðan sá sem hlustar af athygli er einbeittur þátttakandi.
Segja má að hlutverk tónlistarhátiðar sé að fá hin almennu eyru til að taka þátt í tónlistinni með því að leggja við hlustir. Hina sem búa til tónlistina þarf venjulega ekki að hvetja sérstaklega, en þeir fá þó stundum spurningar um framleiðslu- og geymsluaðferðir, upprunavottun og ýmislegt sem nútímaneytendur vilja vera upplýstir um.
Samhliða því að hvetja fólk til aukinnar hlustunar má segja verið sé að þjálfa það í að heyra, enda oft ekki vanþörf á þegar listamennirnir sjálfir eru venjulega of niðursokknir í eigin gjörninga til að fylgjast með hvort hlustendur séu að meðtaka boðskapinn. Tónlistarhátíðin er því nokkurskonar stefnumótaþjónusta fyrir komandi kærleik milli flytjenda og hlustenda, eða
loftpúði í þeim árekstri, allt eftir atvikum. Listamennirnir velta fyrir sér móttækileika hlustendanna, sem ákveða hvar hinn tónlistarlegi görningur skorar á væntingaskalanum.
Allt felur þetta í sér þjálfun þó ólík sé. Á sviðinu standa þeir sem hafa tileinkað sér einhverskonar leikreglur. Gildir þá einu hvort um sé að ræða vingjarnlegt stjórnleysi, strangar tónlistarlegar reglur, eða einhverskonar langsótt tilbrigði við eldri viðmið.
Höfum í huga að í jazzmúsík hafa það oft verið skrítnustu rangstöðumörkin sem hafa breytt gangi leiksins til langframa.
Í jazzinum hafa það oftar en ekki verið þeir sem hafa efast um regluverk síns tónlistarlega umhverfis sem hafa blásið nýju lífi í þessa list augnabliksins. Í húsi jazzins er alltaf verið að dytta að, en ef partíið fer úr böndunum þarf stundum allsherjar meikóver. Látum nægja að segja að endurnýjun sé alltaf mikilvæg þó ekki sé gott að skipuleggja hana fyrirfram eða sjá fyrir úr hverju hún sprettur.
Tónlistin er eins og ónæmiskerfið, hún styrkist af mótlætinu. Þess vegna spyr maður sig reglulega:
Er jazzinn hress?
Maður getur ekki ekki annað en vonað að hann sé amk vel rólfær td þegar kemur að því að hylla vegsemd hans og viðgang á hátíðisdögum.
Vandi fylgir víst hverri vegsemd og þar er engin músík undanskilin þó að jazzfólk gæti með nokkrum rétti bent á að vegsemd í jazzi sé nú varla mælanleg. En það er nú uppgerðarlítillæti því að hvernig er hægt annað en að tala um vegsemd þegar listamaður heldur hópi fólks hugföngnum með því að ryðja úr sér hugmyndaríkum hendingum að því er virðist fyrirhafnarlítið.
Vandinn – ef einhver, er kannski helstur sá að hlustendahóparnir séu ekki fleiri og/eða stærri. Verkefni hátíðastjórnenda er að búa til eða finna þessa hópa og leiða þá á fund þeirra sem búa yfir boðskapnum.
Því þeir sem spila, trúa. Eða ættu að gera það. Það eru auðvitað til predikarar sem hafa önnur markmið en að opna fyrir manni kraftbirtingarhljómfræði jazzins. Hafa jafnvel sjálfa sig að markmiði frekar en músíkina. Sá sem hlustar og gengst undir þann sáttmála að sitja eða standa eins og tónleikahaldari eða listamaður segir honum og borgar jafnvel fyrir þátttökuna, hann hlýtur að vera að leita að einhverju. Sá sem er í einlægri leit að sannfæringarkraftinum og sækir spunamessuna með opnum huga er með þátttöku sinni ekki einungis að hylla þann sem stendur á sviðinu heldur það sem hann er að gera. Eða kannski það sem hann ætlar að gera? Hvað hyllum við annars? Tónlistina sjálfa eða fólkið sem flytur hana?
Fæstir þeirra sem fást við tónlist sjá sig beinlínis sem spámenn. Þeir eru nefnilega alltof lítillátir til þess. Í annað sinn nefni ég lítillæti. Áður var það reyndar uppgerðarlítillæti. Það er líklegast óumflýjanlegt að spurningar vakni þegar rætt er um óframfærni annarsvegar og tónlistartrúboð hinsvegar. Átti ekki bara að tala um jazz? En hann er ekki frekar en önnur músík undanskilin tilvistarlegum vangaveltum. Hvað er verið að gera? Hvaða þýðingu hefur þetta? Og ef við spyrjum og efumst- má þá segja að gjörninginn í heild skorti sannfæringarkraft?
Góðu fréttirnar eru þær að það vantar auðvitað sjaldnast sannfæringarkraft. Og sannfæringarvísitalan er illskilgreinanleg. Þeir sem sækja viðburðina verða áfram á höttunum eftir mismunandi upplifunum. Á meðan einn er ekki ánægður fyrr en listamaðurinn liggur örendur á sviðinu þá nægir öðrum að bassasólóið yfirgnæfi ekki samræðurnar.
Sannfæringarkraftur tónlistarinnar er því margslungið fyrirbæri, sem getur hvort sem er eflst eða dvínað í heyranda hljóði. Jazzinn er kannski tónlistin sem er hvað berskjölduðust fyrir skorti á sannfæringu. Því að þar er gert ráð fyrir því að flytjandinn tali frá hjartanu. Hann er ekki að lesa ritninguna, hann er að leggja út frá henni – eða að hafna henni alfarið – jafnvel allt þetta í sama laginu.
Samskipti fólks eru jafnan borin saman við tónlistarflutning. Okkur verður tíðrætt um lýðræðið sem felst í því að koma saman og flytja tónlist á jafnréttisgrunni. Við förum mörgum orðum um alþjóðlegt tungumál tónlistarinnar og hvernig hún getur lagt kalda bakstra á bólgurnar í samskiptum þjóðanna. En hér væri líka hægt að fara mörgum orðum um hvernig það frjálsræði er í mörgum tilvikum bundið einræði frummælanda hvers verkefnis. Og ekki alltaf menntuðu einræði. Það eru til sögur úr jazzinum af handalögmálum á tónleikasviðum. Jákvæða hliðin á því er að ekki vantaði sannfæringarkraftinn.
Hún er falleg myndin af því hvernig lýðræðið blómstrar á hljómsveitarpallinum þó að hátíðarhaldarinn vonist í hjarta sínu miklu frekar eftir borgarlegri óhlýðni á þessum sama palli. Það gerir nú umræðan og skemmtanagildið.
Helstu boðberar jazzinns á Íslandi voru yfirlýstir kommúnistar, sem skildu vel hin nánu tengsl mannréttindabaráttu afrískra ameríkana á 20. öld og hrifust af tónlist sem var runnin undan rifjum þolenda heimsveldisstefnu Ameríku fyrri alda.
Tónlist sem hefur staðið frammi fyrir svo miklu mótlæti að hún hlýtur að vera komin með ódrepandi ónæmiskerfi.
Kannski erum við í dag að sigla inn í nýja tíma hvað varðar hlutverk tónlistarinnar. Kannski á hún eftir að endurspegla með auknum sannfæringarkrafti afstöðu okkar til tilverunnar og umhverfisins. Vonandi aukast vegsemd hennar og verðleikar með kraftinum sem í henni býr án þess að hún sjálf og þeir sem henni sinna verði vandinn sem þarf að leysa.
Pétur Grétarsson
Lana Kolbrún Eddudóttir „Jazzinn og útvarpið“
25/04/2014
Lana Kolbrún Eddudóttir
„Jazzinn og útvarpið“ – erindi haldið á Alþjóðlega jazzdeginum, í Hörpu 30. apríl 2013
Ágæta samkoma! Til hamingju með daginn!
Saga íslenska jazzins er samofin útvarpinu.
Íslenskt útvarp hóf útsendingar 1930 eða um svipað leyti og jazzinn var orðinn aðal-dægurtónlist hins vestræna heims. Og jazz hefur hljómað í Ríkisútvarpinu svo að segja frá upphafi, framan af reyndar í ómstríðri sambúð við íslenska einsöngslagið og allar sinfóníurnar. Í þessu efni munar öðru fremur um ástríðu eins manns, Jóns Múla Árnasonar, þular, sem var daglegur heimilisgestur útvarpshlustenda í áratugi og elskaði Duke Ellington. Ef Jón hefði verið Wagner-aðdáandi veit ég satt best að segja ekki hvernig íslenska jazzinum í útvarpinu hefði reitt af. En undir hans stjórn frjóvgaði Ríkisútvarpið jarðveginn sem jazzblómin spretta í enn þann dag í dag. Hann kom hlustendum á bragðið – og skildi eftir mikilvæga arfleifð innan veggja þjóðarútvarpsins, nefnilega leyfið til þess að setja jazz á fóninn.
En nú er ég að tala um fortíðina og auðvitað er Jón ekki eini maðurinn sem hefur spilað jazz í útvarpinu. Svavar Gests, Vernharður Linnet, Sunna Gunnlaugsdóttir, Gerard Chinotti, Ólafur Þórðarson. Við erum þó nokkuð mörg. En vandvirkni Jóns og hæfileikar gerðu það að verkum að jazzinn fékk sinn sérstaka sess í útvarpinu. Menn báru svo mikla virðingu fyrir Jóni, útvarpsmanninum snjalla og söngdansahöfundinum fína, að Páll Ísólfsson og sinfóníurnar urðu að gjöra svo vel og gefa eftir og hleypa jazzinum upp að hliðinni á sér, efst í virðingarstigann á tónlistardeildinni. Arfleifð Jóns Múla er sú að jazz er talin fullgild sérgrein í íslensku útvarpi. Það er að segja á gamla útvarpinu, Rás 1.
Jazz heyrist nefnilega ekki á nokkurri annarri útvarpsstöð hérlendis, varla. Þetta er ekki séríslenskur vandi, við þetta verkefni glíma jazztónlistarmenn og útvarpsmenn um allan heim. Hrynræn tónlist, rytmísk, á undir högg að sækja í íslensku útvarpi og playlistastöðvarnar, ég þori nú ekki að nefna þær með nafni, þar er mest leikið það sem kalla mætti loudness, og á lítið skylt við tónlist.
Íslenska smáþjóðin, við kotungarnir, við höfum alltaf verið snoknir fyrir upphefð sem kemur að utan. How do you like Iceland er til í ótal tilbrigðum. Og listamenn eru ómark og ekki frægir á Íslandi fyrr en þeir eru frægir í útlöndum. Það hljómar kannski ókunnuglega í eyrum einhverra, en ein elsta og frægasta starfandi jazzhljómsveit heims, hvorki meira né minna, hún er íslensk. Hún heitir Mezzoforte. Og hvað heyrast lög hennar oft í íslensku útvarpi? Árið 2013? Líklega tvisvar, og í bæði skiptin í jazzþætti pínulitlum á Rás 1. Það er nú allt og sumt. Meira að segja Mezzoforte kemst ekki að í íslenska útvarpinu. Af hverju ekki?
Eigin hljóðritanir Ríkisútvarpsins hafa stöðugt dregist saman á undanförnum árum og áratugum. Því miður. Amk. hvað varðar jazzhátíðirnar. Fyrstu hátíðirnar, RúRek, voru hljóðritaðar frá upphafi til enda, það voru tugir tónleika á hverju einasta ári. Og allt er til ennþá. Að vísu á segulböndum, en það er samt til. Það er ekki búið taka yfir það, eins og mestallt dásamlega jazzefnið sem var búið til í Sjónvarpinu í gamla daga. Þegar stórstjörnur eins og Clifford Jordan og Gunnar Ormslev blésu svart-hvítan hálftíma fyrir afnotagjöldin. Svo var því hent. Svo ekki sé talað um heilu sjónvarpsupptökurnar af Listahátíðartónleikum Benny Goodman í Laugardalshöll. Those were the days. Í dag telst það gott ef Rás 1 má semja við Jazzhátíð Reykjavíkur um svona ferna tónleika.
Og það er stöðugt þrengt að Rás 1. Það er eins og að núverandi stjórnendur ríkisfjölmiðilsins trúi ekki almennilega á útvarpið. Þeir láta jafnvel í það skína að útvarp sé deyjandi miðill. Og hvað gerist ef Rás 1 verður lögð af? Hvaða útvarpsstöð ætlar þá að spila jazz á Íslandi?
Sjónvarpið er svo kapítuli út af fyrir sig. Og ég tala um Ríkissjónvarpið, því ég þekki hinar stöðvarnar ekki nógu vel. Í Sjónvarpinu hefur tónlistin verið úthýst, í mörgum atrennum, nú síðast úr Kastljósinu. Undantekningin er einn og einn þáttur eins og Hljómskálinn. En hvar er Jazzskálinn? Sjónvarpið er líka að svíkja komandi kynslóðir um hljóð og mynd af samtímanum sem það á sannarlega að spegla. Hversu mikið er til með Mezzoforte í sjónvarpinu? Einn konsert kannski? Hvað hefur oft verið kallað á Stórsveit Samma til að gera hálftíma prógram? Frelsissveit Nýja Íslands? Af hverju var Glenn Miller glæsikonsert Stórsveitar Reykjavikur með Nútímamönnum, Borgardætrum, Kristjönu, Bjarna og Þór, ekki drifinn beint upp í sjónvarpssal að lokinni Jazzhátíð? Eða konsertarnir sem Kjartan Valdemarsson, Pétur Grétarsson og Gunnar Hrafnsson settu upp með Kristjönu Stefánsdóttur í Salnum, fjórar dagskrár með Berlin, Gershwin og co? Eða tónleikarnir sem haldnir voru á níræðisafmæli Jóns Múla, og Eyþór Gunnarsson sat við píanóið og sagði allar litlu sögurnar af lögum stjúpföður síns. Af hverju er þetta fólk ekki kallað beint í sjónvarpssal og þessu efni skilað til núverandi eigenda Ríkisútvarpsins, með möguleika fyrir alla framtíðar-Íslendinga að geta horft?
Og það er heldur ekki mikill jazz í blöðunum. Jú það birtast fréttatilkynningar um tónleika og málþing, eins og þetta, en gagnrýnin skrif og upplýsandi sem kosta vinnu, kosta undirbúning og kunnáttu, þau eru á undanhaldi. Hver ætlar að taka það sér að skrifa tónleika- og jazzplöturýni þegar Haddi Linnet er hættur að heyra og sjá?
Og svo komum við að móður allra fjölmiðla í dag, netinu. Líklega er vonlaust að spá fyrir um þær breytingar sem verða á allra næstu árum og misserum í kjölfar þeirrar tækniþróunar. Meira að segja svona gamlir flóðhestar sem ólust upp í svart-hvítu, og höfðu aldrei séð vídeótæki þegar þeir fermdust og ekki séð leikjatölvu fyrir stúdentspróf; meira að segja þeir eru sítengdir við umheiminn og gúggla uppskriftir og rússneskar orðaþýðingar eins og enginn sé morgundagurinn. Öllu á að vera hægt að fletta upp á netinu. En þar höfum við verk að vinna.
Einhver stórfenglegasti menningarauki okkar Íslendinga á nýjum tímum er vefurinn tímarit.is Þar má fletta upp hverju sem er, hafi það einhvern tímann birst á prenti hérlendis. En hvað með útvarp og sjónvarp? Getum við flett upp í þeim sjóðum og þeim söfnum? Svarið er nei. Ríkisútvarpið hefur ekki einu sinni séð ástæðu til þess að hleypa almenningi í tónlistarupplýsingaskrá safnadeildarinnar, stærsta tónlistargagnabanka landsins. Svona á sama hátt og við getum kynnt okkur bækurnar okkar, heima á eldhúsborðinu í gegnum tölvuna og í bókasafnsleitarkerfið Gegni.
Allir útvarps- og sjónvarpsþættirnir sem hafa verið framleiddir um áratugaskeið á Íslandi? Getum við flett upp í þeim? Getum við fengið að horfa á gamalt áramótaskaup og gúggla í leiðinni á 4G símanum að maðurinn við píanóið sé Magnús Ingimarsson. Og að burstaklippti tenóristinn sem reykspólar sólóin eins og Stan Getz, það er Gunnar Ormslev? Og þessi flínki þverflautuleikari sem situr þarna í miðjunni og enginn þekkir lengur í sjón? Nú, hét hann Halldór Pálsson? Hann hlýtur að búa í útlöndum. Getum við flett þessu upp á netinu? Svarið er nei.
Það sem ekki er til á prenti og ekki prentað á neti, hvar á að fletta því upp í framtíðinni? Hvernig á að tryggja aðgengi að handritum útvarps- og sjónvarpsmanna? Öllum viðtölunum? Og við skulum þakka Morgunblaðinu fyrir að hafa snemma á tölvuöld opnað aðgang að sínu efni og m.a. gefið okkur kost á að lesa hin merku viðtöl Ólafs Ormssonar. Ef ekkert stendur á tímarit.is, og ef safnaskráning Ríkisútvarpsins verður aldrei gerð aðgengileg almenningi, hvað verður þá um íslenska jazzsögu? Og hljóðritin? Menningarskylda fjölmiðla, amk. örugglega þjóðarfjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins er að skrá og spegla samtímann. Gallinn er sá að það er ekki hægt að leita í útvarpsefninu, og enn síður í sjónvarpsefninu. Það er ekki leitarbært í dag – og ekki á morgun – og örugglega heldur ekki á næsta ári.
Þarna er verk að vinna. Þessa fjársjóði þarf að leysa úr viðjum. Það er okkar er að sjá til þess að nýjar kynslóðir geti gúgglað íslenska jazzsögu eins og hún leggur sig, þegar hún vill, séð handrit, heyrt hljóð og séð mynd. Takk fyrir!
Páll Skúlason ávarp
25/04/2014
Góðir gestir og áheyrendur,
Fyrir hönd íslensku UNESCO nefndarinnar býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa fundar við spurninguna Hvað er jazz? Þegar UNESCO ákvað fyrir tveimur árum að gera 30. apríl að alþjóðlegum jazzdegi, þá bjó að baki sú hugsun að jazz væri öðrum listformum fremri í því að fá jarðarbúa til að sameinast í baráttu fyrir betri heimi – heimi þar sem hver þjóð og hver einasta manneskja nyti viðurkenningar og virðingar, ætti sér sína rödd sem fengi að hljóma í sameinuðum kór allra þeirra sem þrá frelsi og frið í heimi þar sem kúgun og niðurlæging hafa ráðið ríkjum alltof lengi.
Hvers vegna er jazzinn talinn vera svona svona öflugt sameiningarafl? Ég held að fyrir því séu þrjár ástæður. Sú fyrsta er söguleg: Jazzinn þróast sem tjáningartæki hinna kúguðu og niðurlægðu, þeirra sem þrá réttlæti og uppreisn æru andspænis ofríki og yfirgangi spilltra afla. Í öðru lagi er jazzinn óendanlega fjölbreytt listform sem hver einasta manneskja getur tekið þátt í að njóta og móta eftir sinni eigin líðan og tilfinningum. Í þriðja lagi slær jazzinn í takt við æðaslátt lífsins sem ólgar í blóði okkar allra og vill brjóta af sér allar hömlur og endurskapa veröldina, jafnvel veruleikann sjálfan, hér og nú.
Er þetta rétt? Er jazzinn þetta frelsandi sameiningarafl sem við þörfnumst til að bylta heiminum til hins betra? Við skulum láta á það reyna! Hér á eftir verða flutt sex stutt erindi og fjögur tónverk.
Ég þakka Tónlistarskóla FÍH fyrir að hafa skipulagt þennan viðburð með okkur í UNESCO nefndinni, ég þakka fyrirlesurunum og hljómsveitinni Gaukshreiðrinu fyrirfram fyrir framlag þeirra.
Hátíð okkar hefst með því að Gaukshreiðrið leiðir okkur inn í heim Jazzins – Gjörið þið svo vel!
Páll Skúlason
Sigurður Flosason: Jazzmenntun þversögn eða nauðsyn?
25/04/2014
Er þetta guðlegur náðarkraftur eða djöfullegur innblástur? Tengist málið kannski áfengi eða ólöglegum lyfjum? Eru brögð í tafli eða erum við að tala um einhverskonar ofurmannlega hæfileika? Allar þessar spurningar hafa oft heyrst í tengslum við spunann, hina dularfullu þungamiðju jazztónlistar.
Þegar ég var að feta mín fyrstu spor á spunabrautinni í upphafi níunda áratugs síðustu aldar heryði maður ekki bara þessar spurningar heldur líka áhugaverðar kenningar á borð við eftirfarandi: „hann getur ekkert spilað nema hann sé fullur – af því hann æfir sig alltaf fullur“. Ég man líka eftir getgátum um að einstakir spilarar væru með „kerfi“ – hvað sem það nú átti að þýða. Svo man ég eftir eldri kollega sem sagði við mig „sumir hafa það, aðrir ekki”. Hann meinti það líklega ekki sérlega vel en hinsvegar hef ég ekki grun um hvar hann er niðurkominn í dag.
Ofangreindar vangaveltur benda til þess að fagið sem um ræðir sé ekki sérlega tækt til hefðbundinnar kennslu. Almættið, andskotinn og áfengi fara nefnilega ekkert tiltakanlega vel í kennslustofum. Reynslan sýnir hinsvegar að hvorki æðri máttarvöld né ólögleg lyf hafa nokkurn skapaðan hlut með kennslu í spuna og jazztónlist að gera. Það er auðvitað hægt að kenna undirstöðuatriði þessa fags eins og hvað annað. Það geta nefnilega allir impróviserað, spunnið eða leikið af fingrum fram. Bara misvel – rétt eins og aðrar mannlegar verur í öðrum greinum. Þekkingin hjálpar í þessu eins og öðru.
Hvert er þá hlutverk skóla í þessu samhengi? Fyrst og fremst að veita upplýsingar, að svipta heimulegheitahulunni af fyrirbæri sem er í grunninn ekkert sérlega flókið – en er um leið nákvæmlega jafn óútskýranlegt og öll önnur list. Þessu hlutverki hefur Tónlistarskóli FÍH sinnt á Íslandi undanfarin 33 ár. Og hverju hefur sú viðleytni breytt? Jú, nánast allir sem starfa við jazztónlist hér á landi í dag eru fyrrverndi nemendur skólans. Án FÍH skólans ættum við ekki Jóel Pálsson, Einar Scheving, Agnar Má Magnússon, Sunnu Gunnlaugsdóttir, Óskar og Ómar Guðjónssyni, Hauk og Ragnheiði Gröndal, Hilmar Jensson, Skúla Sverrisson, Samúel J. Samúelsson og Kristjönu Stefánsdóttur svo einhverjir séu nefndir. Einstaklingar og hljómsveitir annarra stíla á borð við Sigríði Thorlacius, Moses Hightower og Agent Fresco væru sennilega ekki þar sem þau eru í dag. Ég stæði heldur ekki hér, en það var á gangi FÍH skólans sem ég kynntist Eyþóri Gunnarssyni, Tómasi R. Einarssyni og öllum hinum sem hugsuðu líkt en höfðu aldrei hittst. Þar kynntust líka fjölmargir aðrir og kynnast enn. Þar kynntist unga fólkið sem stendur hérna fyrir aftan mig á nákvæmlega sama hátt og við fyrir rúmum þrjáíu árum. Þau, eins og við, fengu fyrst og fremst tvennt í skólanum; upplýsingar og tækifæri til að finna hvert annað. Svo gerðu þau galdurinn sjálf.
Fyrir utan áðurnefndar jazzstjörnur og útskrifaða nemendur hafa fjölmargir sótt FÍH skólann í skemmri tíma, bætt við sig og blandast inn í aðra tónlistargeira. Þetta er í rauninni ekki minna um vert og það er ekki síst í gegnum þetta framlag skólans sem rökstyðja má þá fullyrðingu að hann hafi hækkað standard og breytt landslaginu í íslensku tónlistarlífi, ekki bara hvað varðar jazztónlist heldur á miklu, miklu breiðari grundvelli. Mig langar að nefna sérstaklega tvö mikilvæg framfaraspor tengd skólanum.
Árið 1997 var sett á laggirnar kennaradeild í rymtískri tónlist við Tónlistarskóla FÍH. Hér er um að ræða tveggja ára viðbótarnám við það sem fyrir var í skólanum og teygði sig þá þegar inn á háskólastigið. Markmið deildarinnar er að undirbúa kennara til kennslu í rytmískri tónlist, þ.e. jazzi, poppi og rokki, á víðum grundvelli við almenna íslenska tónlistarskóa. Við kennaradeildina hafa nú stundað nám átta nemendahópar og þeir tæplega 50 nemendur sem lokið hafa náminu starfa margir við kennslu víða um land. Þannig hefur skólinn stuðlað með afgerandi hætti að útbreyðslu kennslu á því sviði sem hann hafði forgöngu um hér á landi. Með fjölgun menntaðra og hæfra kennara fjölgar nemendum í greininni á landsvísu, virðing fyrir faginu eykst og tónlistin sækir fram.
Síðara atriðið varðar námskrármál, en á árunum 2000 til 2010 komu út nýjar námskrár fyrir íslenska tónlistarskóla á vegum menntamálaráðuneytisins. Þar er í fyrsta sinn gert ráð fyrir námi í rytmískri tónlist, það skilgreint ítarlega og lagt til jafns við klassískt tónlistarnám. Þetta var gríðarlegt framfaraspor, framfaraspor sem ekki hefði verið stigið ef Tónlistarskóli FÍH hefði ekki rutt brautina og síðan haft áhrif á námskrárgerðina í gegnum starfsmenn sem tóku þátt í og höfðu mótandi áhrif á stefnuna.
Er þá ekki bara allt fullkomið og frábært í Íslenskri jazzmennt? Nei, það verður það víst seint. Það má lengi bæta og breyta, en stóra verkefnið tel ég vera að koma þessari menntun upp á formlegt og viðurkennt háskólastig. Það má endalaust deila um hvar og hvernig slíkt gerist en þegar horft er á málið úr fjarlægð þá skiptir það kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir nestu máli eru þau sjálfsögðu mannréttindi nemenda á háskólastigi að fá nám sitt viðurkennt sem slíkt. Við höfum til þessa farið erindisleysu til yfirvalda mennta- og menningarmála en þar hlýtur auðvitað ábyrgðin að liggja. Þar ætti að finnast áhugi á að betrumbæta og sækja fram með fag sem er bæði löngu komið á háskólastigið og löngu búið að sanna gildi sitt.
Góðir áheyrendur, aðalpersónan í hverjum skóla er hvorki kennarinn né skólastjórinn og þaðan af síður skólinn sjálfur. Aðalpersónan er nemandinn. Það eru hans hagsmunir sem eiga að ráða öllu öðru fremur og það er deginum ljósara að það eru hagsmunir langt komins nemanda á sviðið rytmískrar tónlistar að nám sem klárlega er á háskólastigi sé viðurkennt sem slíkt. Af hverju hefur menntamálaráðuneytið engan áhuga á málinu? Af hverju teygir Listaháskóli Íslands sig ekki í þessa átt? Það felast möguelikar í samvinnu stofnana, sameiningu stofana, nýjum stofnunum og síðast en ekki síst í viðurkenningu þess sem fyrir er. Sagan og sérfræðingarnir eru nefnilega í Tónlistarskóla FÍH, svo mikið er víst. Frá sjónarhóli nemandans breytir kannski ekki öllu hver leiðin er svo lengi sem nám, umhverfi og aðstæður versna ekki og batna helst. Það sem skiptir máli er að heppileg leið sé fundin og hún farin. Það þarf að gæta þess að allir græði og enginn tapi. Kannski þarf að skera á hnúta eða opna dyr og það hlýtur að vera hlutverk íslenskra mennamálayfirvalda. Ég kalla eftir áhuga og frumkvæði þaðan.
Titill þessa erindis var Jazzmenntun – þversögn eða nauðsyn? Spurningin er auðvitað fáránleg og henni er líka löngu svarað. Jazz og menntun eru samstæður en ekki andstæður, mennt er máttur og kennsla nauðsyn. Jazzmenntun er sem sagt löngu orðin staðreynd, fyrirbæri sem er komið til að vera. Við þurfum að horfa fram á veginn og huga að næstu skrefum, tryggja áframþrónun og viðurkenningu á næsta námsstigi. Þanng höldum við áfram að gera gott betra og þannig búum við í haginn fyrir næstu kynslóðir.
Takk fyrir.
Tómas R. Einarsson Villimannslegir garganstónar
25/04/2014
Tómas R. Einarsson
Djassdagur 30. apríl 2013: Villimannslegir garganstónar
Ágætu áheyrendur!
Trúlega hefur djasstónlist aldrei verið jafn vinsæl á Íslandi og á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Mörgum þótti sem þessi tónlist væri birtingarform upplausnarinnar sem fylgdi stríðinu og veru erlendra herja hér. Það er ekki fjarri lagi, þessi tónlist var um margt söngur tímans og fylgismenn hennar fyrst og fremst ungt fólk. Þeir sem fyrst andmæltu djassinum voru menningarlegir íhaldsmenn og síðar, eftir að Bandaríkjamenn fóru fram á fá hér herstöðvar til 99 ára, létu ýmsir vinstrimenn að því liggja að bandarískur djass og dægurtónlist þessara tíma, gegndi ásamt bandarískum kvikmyndum, stóru hlutverki í því að að tryggja áhrif bandaríska heimsveldisins á Íslandi. Skoðanir af þessu tagi voru til dæmis settar fram í skáldsögu Elíasar Mar, Vögguvísu, sem kom út 1950.
Vera breskra og síðar bandarískra herja á stríðsárunum og eftir það hafði vissulega afleiðingar fyrir íslenskt djasslíf. Breski herinn fékk til umráða 1 klukkutíma á dag í íslenska ríkisútvarpinu sem þá sendi ekki út allan daginn. Í þessari dagskrá Breta var fastur djassþáttur. Með bandarískum hermönnum komu hingað svonefndar V-disc plötur sem bandaríski herinn gaf út. Þessum plötum var dreift um veröld víða og voru mikill hvalreki fyrir djassunnendur í ýmsum löndum, þar á meðal Íslandi.
Og þegar djassinn varð vinsæll hér vildu margir aðvara þjóðina.
Alexander Jóhannesson háskólarektor sagði í ræðu 1941:
,,Háskólinn tók upp nýja starfsemi, að efna til hljómleika fyrir stúdenta og kennara…og miðar starfsemi þessi að því að auka þekkingu stúdenta á dásemdarverkum sannrar hljómlistar…Orðið fegurð merkir samstilling, samhæfing, og þeir sem drekka í sig anda sannrar hljómlistar og skilja eðli hennar verða sannari menn og fullkomnari. Þeir munu læra að skilja mismuninn á sannri hljómlist og villimannslegum garganstónum þeim er nefndir eru ,,jazz” og banna ætti í hverju siðuðu þjóðfélagi. Þessi afvegaleidda hljómlist, er æskulýðnum er nú boðin á dansleikjum, á sinn þátt í þeirri spillingu og taumleysi er þjáir þjóð vora og til glötunar leiðir.”
Rektorinn sagði að banna ætti jazzinn í hverju siðuðu þjóðfélagi og það voru skoðanabræður hans í Þýskalandi svo sannarlega búnir að gera 1941. Og alvarleg tónskáld hugsuðu sitt eins og sjá má af orðum Hallgríms Helgasonar tónskálds 1943:
,,Hljóðfallið eitt saman, afhjúpað og ærslfengið, eins og það byltist villt og tryllt í jazzinum, getur aldrei leitt til þeirrar sjálfstjórnar, sem hverjum þegn í vel menntu þjóðfélagi ber skylda til að temja sér. Hið óbeizlaða hljóðfall jazzins er ímynd taumlausra ástríðna, sem enginn miðlungssterkur siðgæðisvilji fær hamið né tamið…Negrarnir hafa almennt ekki komizt af hinu fyrsta frumstæða byrjunarskeiði hljóðfallsins; það er hinn eini þáttur tónlistar, sem þeir skynja og skilja til fullnustu. Og þó skilja þeir aðeins hinn tilbreytingarlausa, síendurtekna, hamraða takt vélrænna hreyfinga, sem leiðir til fullkominnar sljóvgunar, vegna skorts á hljóðfallsbundnum fjölbreytileik og ryþmísku lífi. Þjóðir á lágu menningarstigi verða að heyra grunnhljóðfallið með sínu ytra eyra. Hið þroskaða tilfinningalíf Evrópuþjóðanna elur með sér innra hljóðfall, sem vér ekki þurfum að heyra. Grunnhljóðfallið hrærist í sjálfum oss og vér skynjum tilvist þess með voru innra eyra.”
Það er athyglisvert að sjá þarna setninguna um ,,hið þroskaða tilfinningalíf Evrópuþjóðanna” setta fram árið 1943 – en Þjóðverjar voru náttúrlega forystuþjóð í klassískri músík.
Um sama leyti skrifaði tónskáldið Björgvin Guðmundsson:
,,Hugsum okkur Standchen Schuberts annars vegar og görótt jazzlag hins vegar. Hvílíkur munur! Hvort tveggja er þó ástarsöngur. Annar er þrunginn því göfugasta sem einkennir… ástina, og hreyfir vitanlega samstillta strengi í sál hlustandans. En hinn er gegnsmoginn af hinum villimannslegustu og taumlausustu fýsnum sem skáka í skjóli ástarinnar og hreyfir við þeim hvötum í sál hlustandans. Það er að vísu goðgá að nefna þessa tvenns konar söngva samtímis, svona álíka og að nefna himnaríki og hel í sömu andránni…Það er margsannað að músíkalskt fólk sem verulega lýtur áhrifum jazzins, verður ekki aðeins óhæft til að túlka góða tónlist, heldur er því einnig um megn að njóta góðrar tónlistar. Í rauninni er þetta fólk ekki lakara en annað fólk; en áhrif jazzins eru svona sterk.”
Það voru ekki bara íhaldssamir menn úr menningarlífinu sem andæfðu djassinum. Forystumaðurinn í því að koma Íslandi í Nató og styðja herstöðvar Bandaríkjamanna var Bjarni Benediktsson. Hann var dómsmálaráðherra 1947. Þá var Jazzklúbburinn íslenski búinn að skipuleggja tónleika með bandaríska trompetleikaranum Rex Stewart, einum af fremstu spilurum swingtímans. Þegar skammt var til tónleikanna kom tilskipun frá Bjarna Benediktssyni þess efnis að hljómsveitinni væri óheimilt að leika á Íslandi. Skömmu síðar gaf ráðherrann út þá yfirlýsingu að viðurkenndum listamönnum væri heimil landvist, en trúðum bönnuð. Þessi staðreynd rennir nú ekki beint stoðum undir þá kenningu að djassinn hafi átt að svæfa íslenska þjóð svo auðveldara væri að setja hér upp bandarískar herstöðvar.
Einhver frumlegasta lýsingin á djassinum birtist í lesendabréfi í dagblaðinuVísi 1943: ,,Jazzinn hélt innreið sína í landið og náði hljómgrunni þekkingarsnauðrar æsku… Efniviðurinn í honum er trylltur negrasöngur og lífsskoðun Gyðinga. Í jazzinum fer saman efni og meðferð, allt á sömu sveif, að æsa og trylla.”
Rök fjandmanna djassins virka hlægileg á okkur í dag af því að íhaldsöflin í tónlistinni töpuðu þessari orrustu, heimurinn breyttist og Ísland með. Íhaldssemi er mannleg en hún er sjaldan sigursæl í listum.
Þegar djassinn hélt innreið sína til Íslands
25/04/2014
Hér verður stiklað á stóru um djass og djassskotna danstónlist á Íslandi fram að lokum seinni heimstyrjaldar. Hafa verður í huga að margan skilning má leggja í orðið djass og því verður seint svarað hvað djass sé. Hver kynslóð leggur sinn skilning í hugtakið og vert er að hafa í huga orð Þorvaldar Steingrímssonar, sem var í hópi fyrstu íslensku djassleikarana, en um leið dansmúsíkant og liðsmaður Sinfóníunnar frá upphafi, þegar ég spurði hann, 1987, um þann djass sem hann kynntist fyrst:
,, Ja, raunverulega var ekki komin þá sá djass einsog þú skilur orðið. Ég man eftir þegar ég byrja að spila, strákur á Akureyri, þá eru náttúrulega strákar að hópa sig saman að spila og það voru þá gjarnan marsar og lög sem þeir fengu frá Danmörku, svona allskonar slagarar sem komu og áttu ekkert skylt við djass, var enginn djass. Djassinn var náttúrulega kominn á fullt í Ameríku, en hann kom bara heldur seint til Evrópu. Hann kemur fyrst til Bretlands og það er nefnilega þess vegna sem hann kemur tiltölulega snemmatil okkar á Íslandi því að Hótel Borg fékk alltaf breska tónlistarmenn hingað.”
1930 var Hótel Borg opnuð við Austurvöll og þangað ráðin dönsk djass- og danshljómsveit, Dondes band, en hljómsveitarstjórinn, Eli Donde var nítján ára fiðlari og lék bandið í stíl Joe Venuti Blue Four.
1933 var fyrsti enski hljómsveitarstjórinn ráðinn á Borgina, saxófónleikarinn Jack Quinet. Árið eftir fylgdi Arthur Rosebery í fótspor hans, en hann var einn þekktasti hljómsveitarstjóri Lundúna, með frægt band á Kit Kat klúbbnum sem hljóðritaði fjölda hljómplatna. Enskir hljóðfæraleikarar komu með þessum hljómsveitarstjórum, en 1932 hafði Félag íslenskra hljóðfæraleikara verið stofnað og barðist félagið, undir ötulli forustu Bjarna Böðvarssona, fyrir því að Íslendingar yrðu einnig í hljómsveitum hinna erlendu hljómsveitastjóra.
Svo varð.
1937 kom hingað saxófónleikarinn Billy Cook, sem hafði lært hjá sjálfum Johnny Hodges og síðan vesturíslenski trompetleikarinn Páll Dalman, sem leikið hafði í hljómsveit Jack Harris í Lundúnum. Þá tók Jack Quinet aftur við hljómsveitinni á Borginni og varð bæði fyrstur og síðastur hinna ensku hljómsveitrarstjóra þar. Hann var sakaður um liðhlaup af berskum yfirvöldum og fluttur í böndum út í breskt herskip í júní 1942. Þá tók Þórir Jónsson fiðlari og saxófónleikari við hljómsveitinni og með honum léku þeir þrír Íslendingar, sem lengst höfðu leikið með ensku hljómsveitastjórunum og telja má fyrstu stórdjassleikara Íslands: Sveinn Ólafsson á tenórsaxófón, Vilhjálmur Guðjónsson á klarinett og altósaxófón og Jóhannes Eggertsson á trommur. Aðrir í hljómsveitinni voru Höskuldur Þórhallsson á trompet, Árni Björnsson tónskáld á píanó og Fritz Weishappel á bassa. Til er upptaka með þessari hljómsveit frá 1943; fyrsta íslenska djasshljóðritunin.
En hafði ekkert fréttst af djassinum á Íslandi fyrir 1930? Jú helur betur.
Árið 1919 birtir vesturíslenska blaðið Lögbergi þá frétt að nokkrir íslenskir ungir menn úr Bethune Jazz Band hafi hlotið fyrstu verðlaun á ,,Peace Day Celebration”. Ekki er þess getið hvað þessir ungu menn spiluðu, en ekki er ólíklegt að fyrstu djassplöturnar, hljóðritanir Orginal Dixieland Jazz Band frá 1917, hafi borist norður yfir landamærin.
Orðið djass birtist fyrst á prenti á Íslandi árið 1920, en þá er auglýsing í Vísi frá Dansskóla Sigurðar Guðmundssonar þar sem segir að kennsla hefjist fyrir börn og fullorðna þar sem nýjasti ameríski dansinn verði kenndur ,,jass, sem er mjög fljótt lærður og fallegur og þægilegur dans og er nauðsynlegt að allt ungt fólk kunni.”
Meðal laga sem dansað var eftir á skemmtunum skólans var Temptation Rag frá 1909.
Djasshljómsveit er í fyrsta skipti auglýst í íslensku dagblaði, Vísi, þann 15. mars 1924 : ,, Jass-band í kvöld á Hótel Ísland.“
Þann 29. sama mánaðar skrifar Hljómlistarvinur grein í Vísi um tónlistarsmekk Íslendinga, sem þykjast ekki skilja eigin snillinga s.s. Pál Ísólfsson og Harald Sigurðsson.
,,En það þykist skilja það, þegar útlendir menn kreista hljóðfæri sin snöggklæddirog berja trumbur og tréklossa að sið villimanna, – og nefna , Jass-band”! Þangað flykkist það. Eg tala nú ekki um ef fenginn er dvergur til að skrækja og afskræma sig framan í það, eða útlendur durgur til að kveða fyrir það klámvísur.”
Þessir útlendingar í fyrstu djassböndunum hafa líklega flestir verið danskir eða þýskir, jafnvel norskir og ungverskir. Hvergi er lýst í blöðum hvernig tónlist var á efnisskránni: líklega djasskotin danstónlist í stíl Paul Whitemans og Jack Hyltons.
Þetta ár birtist skemmtileg auglýsing í Morgunblaðinu um að von sé á hinum margþráðu ,,Jass áhöldum” til landsins, sem sagt trommusetti, sem lengi var kallað því nafni
1925, er auglýsing í Morgunblaðinu um dansleik sem hljómsveit O. P. Bernburg heldur á Hótel Íslandi klukkan 9 til 4, þarsem átta manna djasshljómsveit spilar. En það væri jafn varhugavert að halda að djasshljómsveit í auglýsingu árið 1924 væri djasshljómsveit í okkar skilningi, og ef seinna yrði talið að jazzballet dansskólannaætti eitthvað skylt við djassmúsík.
Það er ekki fyrren 1933 að nöfn þeirra Louis Armstrongs og Duke Ellingtons birtast á prenti í plötuauglýsingum. Því má ætla að almenningur hér hafi varla kynnst alvörudjassi fyrren eftir 1930.En þeir sem fóru erlendis kynntust sumir djassinum snemma. Í bréfi sem Guðmundur Thorsteinsson, listmálarinn Muggur, skrifar heim frá Ameríku 1915 segir hann: ,,Eitt er hér skemmtilegt og það er þessi gegnumsimpla negramúsík.” Jón Múli Árnason taldi að Muggur hafi hlustað á ragtime- og skálmpíanista New York borgar m.a. Abba Labba og sagt Davíði Stefánssyni frá og þaðan sé nafnið á kvæðinu fræga komið: Abba Labba Lá.
Þegar líður á þriðja áratug aldarinnar er farið að nafngreina íslenska menn sem stjórna djassböndum: Þórarinn Guðmundsson fiðlara, Emil Thoroddsen píanista og Karl Otto Runólfsson fiðlara og trompetleikara.
Hversu mikinn djass þessir menn spiluðu er ekki hægt að segja, en sýnkópur og fraseringar trúlega með í för.
Bernburg stjórnaði vel æfðri hljómsveit sem lék jöfnum höndum danstónlist og klassíska tónlist. Hann lék undir bíómyndum, undir borðum, hélt tónleika og lék á dansleikjum. Það er ekkert vafamál að Bernburg hefur verið íslensku tónlistarlífi mikil lyftistöng, enda er varla fjallað um tónlist í reykvískum blöðum á þriðja áratug síðustu aldar, án þess að nafn hans komi við sögu. Hann lést í júlí 1935.
Í maí 1925 er haldinn útvarps dansleikur,sá fyrsti hér á landi. og er þetta fyrir stofnun Ríkisútvarpsins.
,,Danzað verður eftir jass-músik frá P. O. Bernburg,sem verður varpað út frá stöðinni hér í Reykjavík. Auðvitað ertækifæri fyrir alla útvarpsnotendur að fá sér snúning eftir þessari music sem verður til kl. nál. 2 í nótt.”
Og jassinn barst um landið.
Í Akureyrarblaðinu Norðlingi 1928 er skrifað: ,,Hjer í bæ hafa nokkrir ungir menn gengið saman í flokk til samvinnu og framkvæmda því máli, að koma hjer upp vísi til Jazz-hljómsveitar, svo bæjarbúar ættu kost á góðri músik á dansleikjum. Nefna þeir hljómsveit þessa X bandið”.
Reynir Gíslason píanisti lék oft með Paul Otto Brenburg. Hann var vinur Guðjóns, föður Halldórs Laxness, og getur Laxness hans í skáldævisögu sinni: Í túninu heima.
Reynir er fyrsti Íslendingurinn sem leikur með þekktum djassskotnum hljómsveitum erlendis. 1912 lék hann með einni frægustu danshljómsveit Dana, hljómsveit Kai Julians. Hann kemur heim aftur og reynir að lifa af tónlistinni, , en 2. október 1918 birtir hann aulýsingu í Morgunblaðinu, þar sem hann óskar eftir allskonar vinnu við tónlist, jafnt spilamennsku sem kennslu, annars neyðist hann til að flytja af landi brott. Ekkert virðist hafa gengið hjá Reyni, enda hart í ári á Íslandi, því 17. júní 1919 auglýsir hann píanó sitt til sölu og heldur til Hafnar með Botníu í september það ár.
1926 er hann kominn í hljómsveit Valdimars Eibergs, sem telja má fyrsta danska djasshljómsveitarstjórann, þótt sýnkópíseruð dansmúsík hafi verið lifibrauðið, en til að fá sæti í hljómsveit Eibergs hefur Reynir þurft að vera sleipur píanisti, því samtíða honum þar voru nokkrir fremstu djassleikarar Dana. Hann hljóðritaði tvö lög með Eiberg, sem því miður voru aldrei gefin út og eru glötuð. Hljóðritanir hans með Kai Julian frá 1931 og 33 hafa varðveist.
Ein af fáum frásögum þar sem nefnd eru lög er djass- sveitirnar leika er þessi úr Morgunblaðinu þann 4. febrúar 1928. KA skrifar:
,,Leikkvöldið hefst með því, að hljómsveit Þórarins Guðmundssonar færir bæjarbúum skrautlegan vönd nýsprottinna kynjablóma úr vermihúsi nýtískutónlistar, nokkur jazz-lög, sem heimurinn dansar eftir í bili: Romantic, Persian rosebud og Fifty million Frenchmen can’t be wrong!”
Fyrsta formlega danshljómsveitin er ber djassnafnið í heiti sínu og við vitum hverjir skipuðu, var Jassband Reykjavíkur sem stofnuð var 1929. Hennar er ekki getið oft í blöðunum, en þann 26. nóvember, á stofnárinu, birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem segir að Jazzband Reykjavíkur, 9 menn, spili á dansleik hjá Glímufélaginu Ármanni og þann 4. janúar leiki sveitin á dansleik hjá dansskóla Ástu Norðmann.
Frumkvöðull Jazzbands Reykjavíkur var píanistinn Aage Lorange,sem farinn var að spila búggavúgga uppúr 1923, en hann, Þorvaldur Steingrímsson fiðlari og klarinettuleikari og Poul yngri Bernburg trommari, voru helstu djassskotnu hljóðfæraleikar landsins fram yfir seinni heimstyrjöldina, fyrir utan djassþrenninguna í Borgarbandinu.
Hér hefur verið stiklað á stóru um frumbersku djassins á Íslandi, en raunveruleg djassöld hófst fyrst með ungu mönnunum eftir stríð: Hljómsveit Björns R. Einarssonar, KK sextettnum og meistaranum mikla, er sigldi með Gullfossi frá Danmörku til Íslands 1946, og settist að í landi móður sinnar: Gunnari Ormslev.