13/11/2023by Dogg

UNESCO- dagurinn haldinn í Eddu

Á dögunum stóð íslenska UNESCO-nefndin fyrir UNESCO deginum í fjórða sinn, samráðs- og kynningarfundi íslenskra aðila sem vinna að UNESCO verkefnum hér á landi og sinna samstarfi við stofnunina.

Fundurinn fór fram í Eddu – húsi íslenskunnar. UNESCO dagurinn er mikilvægur samráðsvettvangur íslenskra aðila að UNESCO þar sem þeim aðilum sem starfa undir merkjum UNESCO á Íslandi gefst tækifæri til að stilla saman strengi og auka samstarf sín á milli.

UNESCO, menningar- og menntamálastofnun Sameinuðu þjóðanna, stuðlar að fjölbreyttum verkefnum á sviði menningar og menntamála – þar með talið menningarlegri fjölbreytni, verndun náttúru- og menningarminja og alþjóðlegu samstarfi í vísindum og menntamálum og á sviði fjölmiðla og upplýsingamála. Ísland gerðist aðili að UNESCO 1964 og hefur verið starfandi landsnefnd UNESCO á Íslandi frá 1966.

Fulltrúar fjölda UNESCO-aðila og verkefna kynntu nýleg verkefni á fundinum í Eddu og hvað væri helst að frétta af vettvangi þeirra. Aðalfyrirlesari UNESCO-dagsins að þessu sinni var James Bridge, framkvæmdastjóri og aðalritari bresku UNESCO landsnefndarinnar sem kynnti nýútkomna kortlagningu UNESCO -staða þar í landi og úttekt landsnefndarinnar á gildi og verðmæti UNESCO á Bretlandseyjum en mikill áhugi er hjá UNESCO-aðilum á Íslandi fyrir sambærilegri kortlagningu.

Á meðal umfjöllunarefna dagsins voru auk þess Reykjanesjarðvangur og Katla jarðvangur, samstarf norrænna heimsminjastaða, undirbúningur að fyrsta UNESCO-vistvangnum á Snæfellsnesi, skráning sundlaugarmenningar á Íslandi, samvinna um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í fjölda UNESCO – skóla, ný sýning um Vigdísi Finnbogadóttur velgjörðarsendiherra UNESCO, starf Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO og ný handritasýning í Eddu en handritasafn Árna Magnússonar er á skrá UNESCO yfir Minni heimsins.

Nánar um verkefnin má sjá á UNESCO á Íslandi hér á vefnum.