02/02/2023by Gummi

Fundaði með fulltrúum UNESCO í París

Menningarmál og málefni fjölmiðla voru í brennidepli í heimsókn Lilju Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í höfuðstöðvar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). 

UNESCO vinnur að því að stuðla að friði og öryggi með alþjóðlegri samvinnu milli aðildarríkja á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1964 en í dag eru 195 ríki aðilar að UNESCO. 

Fundaði Lilja meðal annars með Ernesto Ottone, aðstoðarframkvæmdarstjóra menningarmála hjá UNESCO. Ræddu þau meðal annars um þróun og horfur menningargeirans eftir heimsfaraldurinn, samspil og áhrif tækni á menningu og tungumál, og áfangastaðastjórnun á stöðum sem hafa verið útnefndir á heimsminjaskrá UNESCO. Kynnti Lilja einnig yfir þá fjölþættu stefnumótun á sviði menningarmála sem Ísland hefur átt í, til að mynda á í kvikmyndum, tónlist og máltækni.

Ísland tekur virkan þátt í starfsemi samtakanna á sviði menningarmála, m.a. með fullgildingu menningarsamninga, innleiðingu þeirra og þátttöku á ráðstefnum og fundum. Meðal samninga UNESCO á sviði menningarmála sem Ísland hefur fullgilt eru:  Samningur um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform, samningur um varðveislu menningarerfða, samningur um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins, samningur um leiðir til að hindra ólöglegan inn- og útflutning menningarverðmæta og samningur um vernd menningarminja í átökum. 

,,UNESCO er burðarás í alþjóðlegu samstarfi menningarmála sem er mikilvægt að Ísland haldi áfram að rækta. Mikil þekking býr innan stofnunarinnar á stefnum og straumum í menningarmálum heimsins. Ísland hefur átt í góðu samstarfi við hana, en til dæmis má nefna að á Íslandi eru 3 staðir á heimsminjaskrá UNESCO; Surtsey, Þingvellir og nú síðast Vatnajökulsþjóðgarður sem tekinn var á skránna árið 2019,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. 

Þá fundaði ráðherra með Tawfik Jelassi, aðstoðarframkvæmdastjóra upplýsinga- og samskiptamála um stöðu og frelsi fjölmiðla, upplýsingaóreiðu og falsfréttir. Með tilkomu leitarvéla, samfélagsmiðla og alþjóðlegra streymisveitna hefur viðskiptalíkan hefðbundinna fjölmiðla um allan heim gjörbreyst á stuttum tíma. Tvö alþjóðleg fyrirtæki, Alphabeth (Google) og Meta, taka nú til sín um 50% allra auglýsingatekna án þess að viðkomandi lönd fái tekjur af auglýsingum sem beint er að þeirra markaðssvæði. 

Staða smærri tungumála var einnig rædd en í sítengdum heimi er um 50% efnis á internetinu á tveimur tungumálum, ensku og kínversku, sem ógnar minni tungumálum á borð við íslensku.