09/01/2023by Gummi

Ísland tryggir gildi samnings UNESCO um viðurkenningu háskólanáms á heimsvísu

Ísland og Andorra fullgiltu nýlega samning UNESCO um gagnkvæma viðurkenningu námsgráða á heimsvísu (Global Convention on the Recognition of Qualifications concerning Higher Education). Þar með varð samningurinn formlega fullgildur enda löndin þau nítjánda og tuttugasta sem fullgilda samninginn af alls tuttugu ríkjum sem fullgilda þurfa samninginn svo hann taki gildi. Markar þetta þáttaskil þar sem samningurinn varð í kjölfarið lagalega bindandi um áramót fyrir þau ríki sem hafa skuldbundið sig.

Samningur UNESCO um gagnkvæma viðurkenningu námsgráða á háskólastigi var samþykktur á aðalráðstefnu UNESCO  í nóvember 2019. Samningnum er ætlað að auðvelda útskrifuðum nemendum að fá nám sitt viðurkennt í löndum sem eiga aðild að UNESCO og fullgilt hafa samninginn. Samningurinn er hluti af vinnu UNESCO við Heimsmarkmið 4 um að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum til náms alla ævi. Honum er ætlað að greiða fyrir hreyfanleika og auka gæði háskólanáms, sem og alþjóðasamvinnu á háskólastigi. Skrifstofa ENIC-NARIC fer með framkvæmd samningsins hér á landi fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.