Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur staðfest við UNESCO stuðning Íslands við Parísaryfirlýsinguna: Áskorun um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar. Yfirlýsingin er liður í því að auka skuldbindingu aðildarríkja UNESCO til að styrkja menntakerfi alls heimsins í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, ekki síst í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 sem hefur haft veruleg áhrif á menntun um allan heim.
Meginskilaboð yfirlýsingar:
- Brýnt úrlausnarefni er að taka á menntaáskorunum og ójöfnuði sem kom skýrt fram í COVID-19 heimsfaraldrinum.
- Jafnræði, gæði og skilvirkni eru algild markmið í menntun.
- Víðtækt og fjölþætt samstarf og virk þátttaka allra hagsmunaaðila um eflingu menntunar.
- Forgangsraða, verja og auka fjármögnun til menntamála í aðildarríkjum.
- Uppfylla markmið Incheon heimsþings um menntun frá 2015 og heimsfundar (GEM) frá 2020 um fjárhagslegar skuldbindingar á sviði menntunar.
- Finna leiðir til að auka fjármagn til menntamála í gegnum umbætur í skattkerfinu með nýjum aðferðum til fjármögnunar og samstarfi hins opinbera og einkaaðila.
- Forgangsraða fjárfestingum í menntakerfinu með áherslu á heimsmarkmið nr. 4 um gæðamenntun fyrir alla.
Frá fundi menntamálaráðherra aðildarríkja UNESCO í sumar þar sem Ásmundur Einar Daðason kynnti áform Íslands um eflingu menntakerfisins.
UNESCO gegnir forystuhlutverki við innleiðingu og samhæfingu eftirfylgni með heimsmarkmiði 4 sem nær til alls menntakerfisins. Því er ætlað að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.
Ísland á nú sæti í framkvæmdastjórn UNESCO næstu fjögur árin.