Ísland hefur nú staðfest Haag-samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka. En gögnum þar að lútandi var skilað til höfuðstöðva UNESCO í París síðastliðinn mánudag. Unnið var að fullgildingu samningsins í samstarfi menningar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Nú hafa nær öll lönd Evrópu staðfest samninginn.
Haag-samningurinn frá 1954 er mikilvægt verkfæri til verndar menningarverðmætum í yfirstandandi stríði í Úkraínu. Hann er fyrsti og umfangsmesti fjölþjóðasamningurinn sem snýr að verndun menningarverðmæta og var gerður í kjölfar seinni heimstyrjaldar þegar ómetanleg menningarverðmæti skemmdust, var stolið eða glötuðust. Gífurlegt tjón hefur orðið á menningarverðmætum í vopnuðum átökum undanfarin ár, t.a.m. í fyrrum Júgóslavíu, í Írak og í Sýrlandi og aukin hætta er á eyðileggingu þeirra vegna þróunar hernaðartækni. Yfirstandandi innrás í Úkraínu er þar ekki undantekning, en fréttir hafa borist af vísvitandi eyðileggingu innrásarliðs á menningarverðmætum.
„Tjón á menningarverðmætum hverrar þjóðar er tjón á menningararfi alls mannkyns og brýnt er að sá arfur hljóti alþjóðlega vernd,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Aðilar að samningnum skuldbinda sig til að vernda menningarverðmæti þegar vopnuð átök eiga sér stað. Á friðartímum skulu aðildarríki vinna að forvörnum m.a. með skráningu menningarverðmæta og gerð neyðaráætlana gegn eyðileggingu þeirra. Samningnum fylgir skuldbinding til að bera virðingu fyrir menningarverðmætum innan eigin landamæra sem og innan annarra aðildarríkja.
Menningarverðmæti sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt samningnum eru merkt með verndarmerki hans, Bláa skildinum.