UNESCO Landsskrá Íslands um Minni heimsins
Landsskrá Íslands um Minni heimsins
Íslensk túnakort 1916-1929 - Þjóðskjalasafn Íslands
Tún á Íslandi voru mæld og gerðir af þeim uppdrættir á árunum 1916-1929 á grundvelli sérstakra laga frá 1915. Kortin sýna nákvæmlega stærð túna, matjurtagarða og afstöðu bygginga og annarra mannvirkja. Þau eru því einstæð heimild um búsetulandslag, staðfræði og skipulagsmál hér á landi í upphafi 20. aldar. Túnakort geyma staðfræðilegar upplýsingar um drjúgan hluta fornleifa á Íslandi og er helsta heimild við skráningu þeirra. Þau sýna legu bæja og útihúsa sem flest eru horfin af sjónarsviðinu. Túnakortin sýna þannig staðsetningu heimila landsmanna um 1920 og geta flestir Íslendingar tengt sig við kortin með einum eða öðrum hætti. Uppdrættirnir eru um 5100 að tölu og sýna tún um 6300 heimila. Þorri kortanna er svarthvítur en í sumum hreppum voru þau gerð í lit. Stærð flestra kortanna er á bilinu A 3 til A 2
Konungsbók eddukvæða - Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Handritið sem um ræðir er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur. Það var sent Danakonungi að gjöf á 17. öld og hlaut þess vegna nafnið Codex regius, þ.e. konungsbók. Þar eru felld saman í heild kvæði af norrænum goðum og hetjum þjóðflutningaaldar og víkingaaldar. Mest af þessum kvæðaarfi er hvergi til nema í þessu handriti og yngri eftirritum þess. Eddukvæði teljast til frumheimilda um trúarbragðasögu norrænna þjóða. Þessi arfur hefur varðveist sem leifar eða endurskapaður í nýjum búningi á þýsku og engilsaxnesku menningarsvæði en hvergi eins fjölbreyttur og með eins fornlegu sniði og á Íslandi.
Kvikfjártalið 1703 - Þjóðskjalasafn Íslands
Sambærileg frumheimild á borð við Kvikfjártalið 1703 mun vera vandfundin hjá öðrum þjóðum. Tilurð þess á rætur að rekja til viðamikillar rannsóknar danskra stjórnvalda á högum Íslendinga í upphafi 18. aldar. Kvikfjártal Árna Magnússonar og Páls Vídalín er ein af þremur megin frumheimildum, íslenskum, um efnahagslegar, félagslegar og atvinnulegar aðstæður á Íslandi á árabilinu 1702-1714. Hinar heimildirnar eru annars vegar Jarðabók þeirra Árna og Páls og þá Manntalið 1703. Saman veita þessar þrjár heimildir einstæða möguleika til rannsókna á íslensku samfélagi í upphafi 18. aldar. Til þessa hafa fræðimenn lítið notað Kvikfjártalið 1703, enda hefur það ekki verið gefið út á prenti, líkt og Jarðabókin og Manntalið 1703. Kvikfjáreigendur eru nefndir með nafni og getið um búsetu þeirra. Þannig fæst samanburður við Manntalið 1703. Dæmi eru um að jörð sé farin í eyði á tímabilinu frá manntalsdögum og fram að kvikfjártalningu, sem fór fram um tveimur mánuðum síðar. Ný vitneskja um eignarhald á skepnum kemur fram með því að tíunduð er kvikfjáreign vinnufólks. Þá eru glögg dæmi um hvernig kvikfé var leigt og sett í fóður með ýmsum hætti og þannig má rekja einsök dæmi um eignir og efnahagsleg samskipti eigenda og leiguliða.
Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, eiginhandarrit - Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn
Passíusálmar Hallgríms Péturssonar komu fyrst út árið 1666 og hafa verið gefnir út yfir 90 sinnum, síðast árið 2015, oftar en nokkuð annað íslenskt verk. Þá hafa þeir einnig verið þýddir á mörg tungumál. Sálmarnir hafa notið mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar í tæp 350 ár, bæði á opinberum vettvangi og til persónulegrar íhugunar. Aðeins eru varðveitt tvö handrit með hendi Hallgríms Péturssonar: Passíusálmarnir, sem varðveitt er í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (JS 337 4to), og skýringar við vísur í Ólafs sögu Tryggvasonar í British Library (BL Add 11.193). Þá má geta að handritið hefur verið í fórum Hallgríms Péturssonar, Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, Jóns Sigurðssonar og fleiri þekktra einstaklinga Íslandssögunnar.
Á heimsskrá UNESCO og landsskrá Íslands um Minni heimsins
Manntalið 1703 - Þjóðskjalasafn Íslands
Árið 2012 sendi Þjóðskjalasafn inn umsókn um að manntalið 1703 yrði tekið á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins. Umsóknin var samþykkt 18. júní 2013 en um skráninguna má lesa nánar á vefsetri UNESCO. Manntalið 1703 er líklega elsta manntal í heimi, sem enn er varðveitt, þar sem getið er allra þegna heillar þjóðar með nafni, aldri og stöðu. Það er einstök heimild um íslenskt þjóðfélag í upphafi 18. aldar. Ákvörðun um að taka manntalið spratt af bágbornu efnahagsástandi landsins og harðindum í lok 17. aldar. Árni Magnússon prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og Páll Vídalín varalögmaður fengu það verkefni að kanna ástand og efnahag landsins og taka manntal. Þeir sendu sýslumönnum fyrirmæli um töku manntalsins sem aftur fólu hreppstjórum framkvæmdina sem hófst í desember 1702 og lauk í júní árið eftir. Manntalsskýrslurnar voru síðan sendar til Danmerkur og voru þar allt til ársins 1921 að þær voru fluttar til Íslands. Með samningi Íslands og Danmerkur árið 1927 urðu þær eign Íslands. Manntalið er varðveitt í heild sinni í Þjóðskjalasafni á um 1700 blöðum og bréfsnifsum í tveimur skjalaöskjum. Það þætti ekki mikið pappírsmagn nú á tímum, en öðruvísi horfði við á sínum tíma. Í Grímsstaðaannál segir um pappírsnotkun við manntalsgerðina: „þá var pappír dýr í sveitum víða, er öllu þessu var aflokið“. Hagstofa Íslands gaf manntalið út í prentuðum heftum á árunum 1924-1947, sem síðar voru sameinuð í bókarform. Árið 2001 var manntalið 1703 í fyrsta sinn birt notendum alnetsins á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Núna er stafræn gerð manntalsins á manntalsvef Þjóðskjalasafns.
Handritasafn Árna Magnússonar - Arnamagnæan Manuscript Collection
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Nordisk forskningsinstitut, Kaupmannahöfn. Í mars 2008 stóðu Ísland og Danmörk sameiginlega að því að tilnefna handritasafn Árna Magnússonar til skráningar á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins, en safnið er varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Handritasafn Árna var í hópi 35 verka sem UNESCO setti á heimsskrána þann 31. júlí 2009. Í rökstuðningi UNESCO segir að handritasafn Árna Magnússonar geymi ómetanleg handrit um sögu og menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar nefndar sem sérstakt dæmi um þau bókmenntaverk sem handritin geyma og lesin eru á fjölmörgum tungumálum víða um heim enn þann dag í dag. Handritasafnið geymir um 3000 handrit og handritahluta frá miðöldum og síðari öldum auk fjölda fornbréfa sem Árni safnaði. Meiri hluti safnsins eru íslensk handrit en einnig eru þar norsk, dönsk og sænsk handrit. Það er fyrst íslenskra minja til að komast í heimsskrána um Minni heimsins. Ákvörðun UNESCO sýnir mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og erindi þeirra við heimsbyggðina alla.