Árið 1995 fullgilti Ísland samning UNESCO frá árinu 1972 um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heims.
Samningurinn hefur verið áhrifamikill á heimsvísu þegar kemur að varðveislu menningararfs. Með samningnum sammælast aðildarríki hans um að varðveita menningar- og náttúruarfleifð sem talin er einstök á heimsvísu. Hjá UNESCO fer fram umfangsmikil starfsemi varðandi varðveislu menningar- og náttúruarfleifðar, m.a. leiðbeiningar og fræðsla. Að auki er haldin sérstök skrá um arfleifð sem er í bráðri hættu og ýmis úrræði til aðstoðar í slíkum tilvikum.
Á grundvelli samningsins er hin þekkta heimsminjaskrá UNESCO. Þar er að finna fjölbreytta staði um allan heim sem taldir eru hafa ómetanlegt alheimsgildi og þarfnist varðveislu.
Á Íslandi eru þrír staðir skráðir á heimsminjaskrána.