19/04/2021by Gummi

Verndun tungumála heimsins: Ísland í stýrihóp UNESCO vegna áratugs frumbyggjamála

Birna Arnbjörnsdóttir forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Ásdís Rósa Magnúsdóttir, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar.

Tungumál sem fáir tala, líkt og íslenska, eiga undir vök að verjast. Flest tungumál heimsins eru notuð af fáum og mörg þeirra flokkast sem mál í útrýmingarhættu, hvort sem þau eru opinber mál þjóðríkja, minnihlutamál eða frumbyggjamál. Með auknu sambýli tungumála er mikil hætta á jaðarsetningu slíkra mála sem að lokum getur leitt til útrýmingar þeirra; til dæmis eru færri en eitt hundrað þeirra 6500 tungumála, sem töluð eru í heiminum, notuð á stafrænan hátt og aðeins örfá hundruð tungumála eru kennd í skólum heimsins.

Ísland hefur nú tekið sæti í stýrihópi og undirbúningsnefnd Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) vegna Alþjóðlegs áratugs frumbyggjamála (2022-2023) en markmið þess verkefnis er að vekja athygli á alvarlegri fækkun slíkra tungumála og brýnni þörf á að varðveita, endurlífga og efla þau og kynna jafnt á lands- og alþjóðavísu. Fulltrúi Íslands í stýrihópnum er Birna Arnbjörnsdóttir forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og deildarforseti Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands.

Mikil reynsla er innan Vigdísarstofnunar af verkefnum sem lúta að fámennistungumálum og rannsóknum á þeim en stofnunin starfar undir hatti UNESCO sem alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar.