14/11/2019by Gummi

Menntamál eru velferðarmál á heimsvísu

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði aðalráðstefnu framkvæmdastjórnar Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) í dag og ræddi þar um áherslur Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Tilkynnt hefur verið um framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn stofnunarinnar 2021-2025.

Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna er einn mikilvægasti samstarfsvettvangur þjóða heims þegar kemur að uppbyggingu samfélaga. Meginmarkmið stofnunarinnar er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Stefna UNESCO á sviði menntunar markast af því að menntun allra sé lykilþáttur í því að stuðla að friði, sjálfbærri þróun og útrýma fátækt. Meðal forgangsmála á vettvangi þess alþjóðasamstarfs er læsi, menntun innflytjenda og lýðræðismenntun.

„Í þessum áherslum kemur skýrt fram að menntamál eru velferðarmál og að menntun stuðlar að efnahagslegri velsæld. Markviss alþjóðleg samvinna er lykillinn að því að mæta flóknum sameiginlegum áskorunum okkar tíma, því skilningur og lausn vandamála veltur að stórum hluta á menntun og menningarlæsi – færninni til að nema, skilja og virða ólíka menningarheima,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Á aðalráðstefnunni var samþykktur samningur um gagnkvæma viðurkenningu námsgráða á háskólastigi á heimsvísu. Með síauknum hreyfanleika stúdenta og vinnuafls hefur þörfin fyrir samræmdar reglur um viðurkenningu háskólanáms þvert á heimsálfur aukist. Samningurinn mun auðvelda nemendum, kennurum, vísindamönnum og borgurum almennt að fá menntun sína viðurkennda til frekari náms eða starfa í löndum sem eiga aðild að UNESCO og fullgilt hafa samninginn.

Menntun fyrir alla
Alls eiga 193 lönd aðild að UNESCO. Aðalráðstefnan er haldin annað hvert ár en hún er æðsta stefnumótandi og ákvörðunarvald í málefnum stofnunarinnar. Framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er rauður þráður í starfsemi UNESCO en stofnunin ber meginábyrgð á eftirfylgni heimsmarkmiðs nr. 4 um menntun fyrir alla.

„Heimsmarkmiðin eru leiðarstef í stefnumótun stjórnvalda og við vinnum ötullega að því að innleiða heimsmarkmið fjögur og undirmarkmið þess. Áhersla okkar í framboði til setu í framkvæmdastjórn UNESCO er meðal annars á mikilvægi menntaðra og hæfra kennara og við viljum stuðla að því að fjölga þeim og auka alþjóðlega samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum. Þá er virk þátttaka nemenda lykilatriði. Til að efla lýðræðissamfélög þarf að leggja grunn að virkri þátttöku á öllum skólastigum og veita börnum og ungmennum viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri. Ísland leggur áherslu á að leitað sé eftir tillögum ungmenna um hvernig menntakerfi geti stutt við innleiðingu heimsmarkmiðanna og hvernig bæta megi menntakerfi til að þau mæti sem best áskorunum framtíðarinnar,“ segir mennta- og menningarmálaráðherra.

Þróun í alþjóðlegu menntasamstarfi
Í nýrri stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023 leggur Ísland upp með það meginmarkmið að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Ákveðið hefur verið að Ísland muni á næstu árum styðja við verkefni UNESCO á sviði menntunar (e. Capacity Development for Education Programme – CapED) í Afganistan, með sérstakri áherslu á menntun stúlkna. Ísland var meðal stofnaðila þess verkefnis árið 2003 og hefur það gefið góða raun víða um heim.

Frá næstu áramótum munu fjórir skólar, sem um árabil hafa verið starfræktir á Íslandi undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna, verða sameinaðir í Þekkingarmiðstöð þróunarlanda (e. International Centre for Capacity Development) Þetta mun ekki hafa áhrif á hlutverk skólanna né breyta starfsemi þeirra; markmið Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans, Landgræðsluskólans og Jafnréttisskólans verður áfram að auka getu einstaklinga og stofnana í þróunarríkjum, hver á sínu sérsviði. Þeir verða einnig áfram hýstir í samstarfi við viðkomandi fagstofnanir, Orkustofnun, Hafrannsóknarstofnun, Landgræðsluna, Landbúnaðarháskólann og Háskóla Íslands. Skólarnir verða áfram reknir af utanríkisráðuneyti sem hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands en Þekkingarmiðstöð þróunarlanda mun heyra undir starfsemi UNESCO með hliðstæðum hætti og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar.