09/09/2019by admin

Fjölbreytt starf UNESCO á Íslandi

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) stuðlar að fjölbreyttum verkefnum á sviði menningar- og menntamála – þar með talið menningarlegri fjölbreytni, verndun náttúru- og menningarminja og alþjóðlegu samstarfi í vísindum og menntamálum. Á dögunum var haldinn samráðs- og kynningarfundur íslenskra aðila sem vinna að UNESCO verkefnum hér á landi og sinna samstarfi við stofnunina.

Um 20 aðilar kynntu sig og tengsl sín við starf UNESCO á fundinum. Þátttakendur voru:

• Fulltrúar þjóðgarðsins á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarðs og vernarsvæðis Surtseyjar. Þeir staðir eru allir á heimsminjaskrá UNESCO sem er viðurkenning á því að þessir staðir hafi einstakt gildi á heimsvísu.

• Fulltrúar hnattrænu UNESCO jarðvanganna (e. UNESCO Global Geoparks) við Kötlu og á Reykjanesi. Jarðvangar eru skilgreind svæði þar sem finna má merkilegar jarðminjar sem eru mikilvægar á heimsvísu. Jarðvöngum er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.

• Fulltrúar Reykjavíkurborgar – bókmenntaborgar UNESCO. Reykjavík var útnefnd ein af bókmenntaborgum UNESCO árið 2011, þá sú fimmta í heiminum til að hljóta slíkan titil og sú fyrsta utan ensks málsvæðis. Bókmenntaborgirnar eru hluti af stærra neti Skapandi borga UNESCO.

• Fulltrúar verkefnisins UNESCO-skólar á Íslandi. Slíkir skólar starfa á grunn- og framhaldsskólastigi í rúmlega 180 löndum en markmið þeirra er að auka og hvetja til menntunar um mál er tengjast markmiði Sameinuðu þjóðanna; að stuðla að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum, án tillits til trúarbragða, kynþáttar, kynferðis eða tungumála.

• Fulltrúar Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. Vigdísarstofnun hlaut í nóvember 2011 samþykki UNESCO til að starfa undir merkjum hennar sem alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar . Í vottun UNESCO felst mikil viðurkenning á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðningur við framtíðaráform hennar en Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO frá árinu 1998.

• Fulltrúar Íslensku vatnafræðinefndarinarinnar sem sinnir alþjóðasamstarfi á sviði vatnafræði innan UNESCO. Vatn og vatnsöryggi er sérstakt áherslumál hjá UNESCO og rauður þráður innan heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

• Fulltrúar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafns Íslands. Handritasafn Árna Magnússonar og manntalið frá 1703 eru á skrá UNESCO yfir „Minni heimsins“ sem er sérstakur varðveislulisti hvers markmið er að vekja athygli á mikilvægum sameiginlegum andlegum menningararfi heimsins.

• Fulltrúar frá Háskóla Íslands sem er aðili að UNESCO-UNITWIN samstarfsneti um náms- og starfsráðgjöf ásamt 17 háskólum um allan heim.

• Fulltrúar frá Árnastofnun sem vinna að innleiðingu samnings UNESCO um vernd menningarerfða (e. Intangible Cultural Heritage) og halda úti gagnvirku vefgáttinni lifandihefdir.is þar sem aðilum gefst kostur á að skrá lifandi hefðir.

Ísland er í framboði til setu í framkvæmdastjórn UNESCO fyrir tímabilið 2021-2025 og fjallaði Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í París, um framboðið og vinnu fastanefndar Íslands gagnvart UNESCO.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði fundargesti og lýsti yfir ánægju sinni með öflugt starf þeirra allra og sérstaklega það að UNESCO aðilar á Íslandi stilli saman strengi með þessum samráðsvettvangi.