Tómas R. Einarsson – Villimannslegir garganstónar

25/04/2014

Ávörp

Tómas R. Einarsson

 

Djassdagur 30. apríl 2013: Villimannslegir garganstónar

 

Ágætu áheyrendur!

Trúlega hefur djasstónlist aldrei verið jafn vinsæl á Íslandi og á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Mörgum þótti sem þessi tónlist væri birtingarform upplausnarinnar sem fylgdi stríðinu og veru erlendra herja hér. Það er ekki fjarri lagi, þessi tónlist var um margt söngur tímans og fylgismenn hennar fyrst og fremst ungt fólk. Þeir sem fyrst andmæltu djassinum voru menningarlegir íhaldsmenn og síðar, eftir að Bandaríkjamenn fóru fram á fá hér herstöðvar til 99 ára, létu ýmsir vinstrimenn að því liggja að bandarískur djass og dægurtónlist þessara tíma, gegndi ásamt bandarískum kvikmyndum, stóru hlutverki í því að að tryggja áhrif bandaríska heimsveldisins á Íslandi. Skoðanir af þessu tagi voru til dæmis settar fram í skáldsögu Elíasar Mar, Vögguvísu, sem kom út 1950.

Vera breskra og síðar bandarískra herja á stríðsárunum og eftir það hafði vissulega afleiðingar fyrir íslenskt djasslíf. Breski herinn fékk til umráða 1 klukkutíma á dag í íslenska ríkisútvarpinu sem þá sendi ekki út allan daginn. Í þessari dagskrá Breta var fastur djassþáttur. Með bandarískum hermönnum komu hingað svonefndar V-disc plötur sem bandaríski herinn gaf út. Þessum plötum var dreift um veröld víða og voru mikill hvalreki fyrir djassunnendur í ýmsum löndum, þar á meðal Íslandi.

Og þegar djassinn varð vinsæll hér vildu margir aðvara þjóðina.

Alexander Jóhannesson háskólarektor sagði í ræðu 1941:

,,Háskólinn tók upp nýja starfsemi, að efna til hljómleika fyrir stúdenta og kennara…og miðar starfsemi þessi að því að auka þekkingu stúdenta á dásemdarverkum sannrar hljómlistar…Orðið fegurð merkir samstilling, samhæfing, og þeir sem drekka í sig anda sannrar hljómlistar og skilja eðli hennar verða sannari menn og fullkomnari. Þeir munu læra að skilja mismuninn á sannri hljómlist og villimannslegum garganstónum þeim er nefndir eru ,,jazz” og banna ætti í hverju siðuðu þjóðfélagi. Þessi afvegaleidda hljómlist, er æskulýðnum er nú boðin á dansleikjum, á sinn þátt í þeirri spillingu og taumleysi er þjáir þjóð vora og til glötunar leiðir.”

Rektorinn sagði að banna ætti jazzinn í hverju siðuðu þjóðfélagi og það voru skoðanabræður hans í Þýskalandi svo sannarlega búnir að gera 1941. Og alvarleg tónskáld hugsuðu sitt eins og sjá má af orðum Hallgríms Helgasonar tónskálds 1943:

,,Hljóðfallið eitt saman, afhjúpað og ærslfengið, eins og það byltist villt og tryllt í jazzinum, getur aldrei leitt til þeirrar sjálfstjórnar, sem hverjum þegn í vel menntu þjóðfélagi ber skylda til að temja sér. Hið óbeizlaða hljóðfall jazzins er ímynd taumlausra ástríðna, sem enginn miðlungssterkur siðgæðisvilji fær hamið né tamið…Negrarnir hafa almennt ekki komizt af hinu fyrsta frumstæða byrjunarskeiði hljóðfallsins; það er hinn eini þáttur tónlistar, sem þeir skynja og skilja til fullnustu. Og þó skilja þeir aðeins hinn tilbreytingarlausa, síendurtekna, hamraða takt vélrænna hreyfinga, sem leiðir til fullkominnar sljóvgunar, vegna skorts á hljóðfallsbundnum fjölbreytileik og ryþmísku lífi. Þjóðir á lágu menningarstigi verða að heyra grunnhljóðfallið með sínu ytra eyra. Hið þroskaða tilfinningalíf Evrópuþjóðanna elur með sér innra hljóðfall, sem vér ekki þurfum að heyra. Grunnhljóðfallið hrærist í sjálfum oss og vér skynjum tilvist þess með voru innra eyra.”

Það er athyglisvert að sjá þarna setninguna um ,,hið þroskaða tilfinningalíf Evrópuþjóðanna” setta fram árið 1943 – en Þjóðverjar voru náttúrlega forystuþjóð í klassískri músík.

Um sama leyti skrifaði tónskáldið Björgvin Guðmundsson:

,,Hugsum okkur Standchen Schuberts annars vegar og görótt jazzlag hins vegar. Hvílíkur munur! Hvort tveggja er þó ástarsöngur. Annar er þrunginn því göfugasta sem einkennir… ástina, og hreyfir vitanlega samstillta strengi í sál hlustandans. En hinn er gegnsmoginn af hinum villimannslegustu og taumlausustu fýsnum sem skáka í skjóli ástarinnar og hreyfir við þeim hvötum í sál hlustandans. Það er að vísu goðgá að nefna þessa tvenns konar söngva samtímis, svona álíka og að nefna himnaríki og hel í sömu andránni…Það er margsannað að músíkalskt fólk sem verulega lýtur áhrifum jazzins, verður ekki aðeins óhæft til að túlka góða tónlist, heldur er því einnig um megn að njóta góðrar tónlistar. Í rauninni er þetta fólk ekki lakara en annað fólk; en áhrif jazzins eru svona sterk.”

Það voru ekki bara íhaldssamir menn úr menningarlífinu sem andæfðu djassinum. Forystumaðurinn í því að koma Íslandi í Nató og styðja herstöðvar Bandaríkjamanna var Bjarni Benediktsson. Hann var dómsmálaráðherra 1947. Þá var Jazzklúbburinn íslenski búinn að skipuleggja tónleika með bandaríska trompetleikaranum Rex Stewart, einum af fremstu spilurum swingtímans. Þegar skammt var til tónleikanna kom tilskipun frá Bjarna Benediktssyni þess efnis að hljómsveitinni væri óheimilt að leika á Íslandi. Skömmu síðar gaf ráðherrann út þá yfirlýsingu að viðurkenndum listamönnum væri heimil landvist, en trúðum bönnuð. Þessi staðreynd rennir nú ekki beint stoðum undir þá kenningu að djassinn hafi átt að svæfa íslenska þjóð svo auðveldara væri að setja hér upp bandarískar herstöðvar.

Einhver frumlegasta lýsingin á djassinum birtist í lesendabréfi í dagblaðinuVísi 1943: ,,Jazzinn hélt innreið sína í landið og náði hljómgrunni þekkingarsnauðrar æsku… Efniviðurinn í honum er trylltur negrasöngur og lífsskoðun Gyðinga. Í jazzinum fer saman efni og meðferð, allt á sömu sveif, að æsa og trylla.”

Rök fjandmanna djassins virka hlægileg á okkur í dag af því að íhaldsöflin í tónlistinni töpuðu þessari orrustu, heimurinn breyttist og Ísland með. Íhaldssemi er mannleg en hún er sjaldan sigursæl í listum.