Þegar djassinn hélt innreið sína til Íslands

25/04/2014

Ávörp

Hér verður stiklað á stóru um djass og djassskotna danstónlist á Íslandi fram að lokum seinni heimstyrjaldar. Hafa verður í huga að margan skilning má leggja í orðið djass og því verður seint svarað hvað djass sé. Hver kynslóð leggur sinn skilning í hugtakið og vert er að hafa í huga orð Þorvaldar Steingrímssonar, sem var í hópi fyrstu íslensku djassleikarana, en um leið dansmúsíkant og liðsmaður Sinfóníunnar frá upphafi, þegar ég spurði hann, 1987, um þann djass sem hann kynntist fyrst:

,, Ja, raunverulega var ekki komin þá sá djass einsog þú skilur orðið. Ég man eftir þegar ég byrja að spila, strákur á Akureyri, þá eru náttúrulega strákar að hópa sig saman að spila og það voru þá gjarnan marsar og lög sem þeir fengu frá Danmörku, svona allskonar slagarar sem komu og áttu ekkert skylt við djass, var enginn djass. Djassinn var náttúrulega kominn á fullt í Ameríku, en hann kom bara heldur seint til Evrópu. Hann kemur fyrst til Bretlands og það er nefnilega þess vegna sem hann kemur tiltölulega snemmatil okkar á Íslandi því að Hótel Borg fékk alltaf breska tónlistarmenn hingað.”

1930 var Hótel Borg opnuð við Austurvöll og þangað ráðin dönsk djass- og danshljómsveit, Dondes band, en hljómsveitarstjórinn, Eli Donde var nítján ára fiðlari og lék bandið í stíl Joe Venuti Blue Four.

1933 var fyrsti enski hljómsveitarstjórinn ráðinn á Borgina, saxófónleikarinn Jack Quinet. Árið eftir fylgdi Arthur Rosebery í fótspor hans, en hann var einn þekktasti hljómsveitarstjóri Lundúna, með frægt band á Kit Kat klúbbnum sem hljóðritaði fjölda hljómplatna. Enskir hljóðfæraleikarar komu með þessum hljómsveitarstjórum, en 1932 hafði Félag íslenskra hljóðfæraleikara verið stofnað og barðist félagið, undir ötulli forustu Bjarna Böðvarssona, fyrir því að Íslendingar yrðu einnig í hljómsveitum hinna erlendu hljómsveitastjóra.

Svo varð.

1937 kom hingað saxófónleikarinn Billy Cook, sem hafði lært hjá sjálfum Johnny Hodges og síðan vesturíslenski trompetleikarinn Páll Dalman, sem leikið hafði í hljómsveit Jack Harris í Lundúnum. Þá tók Jack Quinet aftur við hljómsveitinni á Borginni og varð bæði fyrstur og síðastur hinna ensku hljómsveitrarstjóra þar. Hann var sakaður um liðhlaup af berskum yfirvöldum og fluttur í böndum út í breskt herskip í júní 1942. Þá tók Þórir Jónsson fiðlari og saxófónleikari við hljómsveitinni og með honum léku þeir þrír Íslendingar, sem lengst höfðu leikið með ensku hljómsveitastjórunum og telja má fyrstu stórdjassleikara Íslands: Sveinn Ólafsson á tenórsaxófón, Vilhjálmur Guðjónsson á klarinett og altósaxófón og Jóhannes Eggertsson á trommur. Aðrir í hljómsveitinni voru Höskuldur Þórhallsson á trompet, Árni Björnsson tónskáld á píanó og Fritz Weishappel á bassa. Til er upptaka með þessari hljómsveit frá 1943; fyrsta íslenska djasshljóðritunin.

En hafði ekkert fréttst af djassinum á Íslandi fyrir 1930? Jú helur betur.

Árið 1919 birtir vesturíslenska blaðið Lögbergi þá frétt að nokkrir íslenskir ungir menn úr Bethune Jazz Band hafi hlotið fyrstu verðlaun á ,,Peace Day Celebration”. Ekki er þess getið hvað þessir ungu menn spiluðu, en ekki er ólíklegt að fyrstu djassplöturnar, hljóðritanir Orginal Dixieland Jazz Band frá 1917, hafi borist norður yfir landamærin.

Orðið djass birtist fyrst á prenti á Íslandi árið 1920, en þá er auglýsing í Vísi frá Dansskóla Sigurðar Guðmundssonar þar sem segir að kennsla hefjist fyrir börn og fullorðna þar sem nýjasti ameríski dansinn verði kenndur ,,jass, sem er mjög fljótt lærður og fallegur og þægilegur dans og er nauðsynlegt að allt ungt fólk kunni.”

Meðal laga sem dansað var eftir á skemmtunum skólans var Temptation Rag frá 1909.

Djasshljómsveit er í fyrsta skipti auglýst í íslensku dagblaði, Vísi, þann 15. mars 1924 : ,, Jass-band í kvöld á Hótel Ísland.“

Þann 29. sama mánaðar skrifar Hljómlistarvinur grein í Vísi um tónlistarsmekk Íslendinga, sem þykjast ekki skilja eigin snillinga s.s. Pál Ísólfsson og Harald Sigurðsson.

,,En það þykist skilja það, þegar útlendir menn kreista hljóðfæri sin snöggklæddirog berja trumbur og tréklossa að sið villimanna, – og nefna , Jass-band”! Þangað flykkist það. Eg tala nú ekki um ef fenginn er dvergur til að skrækja og afskræma sig framan í það, eða útlendur durgur til að kveða fyrir það klámvísur.”

Þessir útlendingar í fyrstu djassböndunum hafa líklega flestir verið danskir eða þýskir, jafnvel norskir og ungverskir. Hvergi er lýst í blöðum hvernig tónlist var á efnisskránni: líklega djasskotin danstónlist í stíl Paul Whitemans og Jack Hyltons.

Þetta ár birtist skemmtileg auglýsing í Morgunblaðinu um að von sé á hinum margþráðu ,,Jass áhöldum” til landsins, sem sagt trommusetti, sem lengi var kallað því nafni

1925, er auglýsing í Morgunblaðinu um dansleik sem hljómsveit O. P. Bernburg heldur á Hótel Íslandi klukkan 9 til 4, þarsem átta manna djasshljómsveit spilar. En það væri jafn varhugavert að halda að djasshljómsveit í auglýsingu árið 1924 væri djasshljómsveit í okkar skilningi, og ef seinna yrði talið að jazzballet dansskólannaætti eitthvað skylt við djassmúsík.

Það er ekki fyrren 1933 að nöfn þeirra Louis Armstrongs og Duke Ellingtons birtast á prenti í plötuauglýsingum. Því má ætla að almenningur hér hafi varla kynnst alvörudjassi fyrren eftir 1930.En þeir sem fóru erlendis kynntust sumir djassinum snemma. Í bréfi sem Guðmundur Thorsteinsson, listmálarinn Muggur, skrifar heim frá Ameríku 1915 segir hann: ,,Eitt er hér skemmtilegt og það er þessi gegnumsimpla negramúsík.” Jón Múli Árnason taldi að Muggur hafi hlustað á ragtime- og skálmpíanista New York borgar m.a. Abba Labba og sagt Davíði Stefánssyni frá og þaðan sé nafnið á kvæðinu fræga komið: Abba Labba Lá.

Þegar líður á þriðja áratug aldarinnar er farið að nafngreina íslenska menn sem stjórna djassböndum: Þórarinn Guðmundsson fiðlara, Emil Thoroddsen píanista og Karl Otto Runólfsson fiðlara og trompetleikara.

Hversu mikinn djass þessir menn spiluðu er ekki hægt að segja, en sýnkópur og fraseringar trúlega með í för.

Bernburg stjórnaði vel æfðri hljómsveit sem lék jöfnum höndum danstónlist og klassíska tónlist. Hann lék undir bíómyndum, undir borðum, hélt tónleika og lék á dansleikjum. Það er ekkert vafamál að Bernburg hefur verið íslensku tónlistarlífi mikil lyftistöng, enda er varla fjallað um tónlist í reykvískum blöðum á þriðja áratug síðustu aldar, án þess að nafn hans komi við sögu. Hann lést í júlí 1935.

Í maí 1925 er haldinn útvarps dansleikur,sá fyrsti hér á landi. og er þetta fyrir stofnun Ríkisútvarpsins.

,,Danzað verður eftir jass-músik frá P. O. Bernburg,sem verður varpað út frá stöðinni hér í Reykjavík. Auðvitað ertækifæri fyrir alla útvarpsnotendur að fá sér snúning eftir þessari music sem verður til kl. nál. 2 í nótt.”

Og jassinn barst um landið.

Í Akureyrarblaðinu Norðlingi 1928 er skrifað: ,,Hjer í bæ hafa nokkrir ungir menn gengið saman í flokk til samvinnu og framkvæmda því máli, að koma hjer upp vísi til Jazz-hljómsveitar, svo bæjarbúar ættu kost á góðri músik á dansleikjum. Nefna þeir hljómsveit þessa X bandið”.

Reynir Gíslason píanisti lék oft með Paul Otto Brenburg. Hann var vinur Guðjóns, föður Halldórs Laxness, og getur Laxness hans í skáldævisögu sinni: Í túninu heima.

Reynir er fyrsti Íslendingurinn sem leikur með þekktum djassskotnum hljómsveitum erlendis. 1912 lék hann með einni frægustu danshljómsveit Dana, hljómsveit Kai Julians. Hann kemur heim aftur og reynir að lifa af tónlistinni, , en 2. október 1918 birtir hann aulýsingu í Morgunblaðinu, þar sem hann óskar eftir allskonar vinnu við tónlist, jafnt spilamennsku sem kennslu, annars neyðist hann til að flytja af landi brott. Ekkert virðist hafa gengið hjá Reyni, enda hart í ári á Íslandi, því 17. júní 1919 auglýsir hann píanó sitt til sölu og heldur til Hafnar með Botníu í september það ár.

1926 er hann kominn í hljómsveit Valdimars Eibergs, sem telja má fyrsta danska djasshljómsveitarstjórann, þótt sýnkópíseruð dansmúsík hafi verið lifibrauðið, en til að fá sæti í hljómsveit Eibergs hefur Reynir þurft að vera sleipur píanisti, því samtíða honum þar voru nokkrir fremstu djassleikarar Dana. Hann hljóðritaði tvö lög með Eiberg, sem því miður voru aldrei gefin út og eru glötuð. Hljóðritanir hans með Kai Julian frá 1931 og 33 hafa varðveist.

Ein af fáum frásögum þar sem nefnd eru lög er djass- sveitirnar leika er þessi úr Morgunblaðinu þann 4. febrúar 1928. KA skrifar:

,,Leikkvöldið hefst með því, að hljómsveit Þórarins Guðmundssonar færir bæjarbúum skrautlegan vönd nýsprottinna kynjablóma úr vermihúsi nýtískutónlistar, nokkur jazz-lög, sem heimurinn dansar eftir í bili: Romantic, Persian rosebud og Fifty million Frenchmen can’t be wrong!”

Fyrsta formlega danshljómsveitin er ber djassnafnið í heiti sínu og við vitum hverjir skipuðu, var Jassband Reykjavíkur sem stofnuð var 1929. Hennar er ekki getið oft í blöðunum, en þann 26. nóvember, á stofnárinu, birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem segir að Jazzband Reykjavíkur, 9 menn, spili á dansleik hjá Glímufélaginu Ármanni og þann 4. janúar leiki sveitin á dansleik hjá dansskóla Ástu Norðmann.

Frumkvöðull Jazzbands Reykjavíkur var píanistinn Aage Lorange,sem farinn var að spila búggavúgga uppúr 1923, en hann, Þorvaldur Steingrímsson fiðlari og klarinettuleikari og Poul yngri Bernburg trommari, voru helstu djassskotnu hljóðfæraleikar landsins fram yfir seinni heimstyrjöldina, fyrir utan djassþrenninguna í Borgarbandinu.

Hér hefur verið stiklað á stóru um frumbersku djassins á Íslandi, en raunveruleg djassöld hófst fyrst með ungu mönnunum eftir stríð: Hljómsveit Björns R. Einarssonar, KK sextettnum og meistaranum mikla, er sigldi með Gullfossi frá Danmörku til Íslands 1946, og settist að í landi móður sinnar: Gunnari Ormslev.