Sigurður Flosason: Jazzmenntun – þversögn eða nauðsyn?

25/04/2014

Ávörp

Er þetta guðlegur náðarkraftur eða djöfullegur innblástur? Tengist málið kannski áfengi eða ólöglegum lyfjum? Eru brögð í tafli eða erum við að tala um einhverskonar ofurmannlega hæfileika? Allar þessar spurningar hafa oft heyrst í tengslum við spunann, hina dularfullu þungamiðju jazztónlistar.

Þegar ég var að feta mín fyrstu spor á spunabrautinni í upphafi níunda áratugs síðustu aldar heryði maður ekki bara þessar spurningar heldur líka áhugaverðar kenningar á borð við eftirfarandi: „hann getur ekkert spilað nema hann sé fullur – af því hann æfir sig alltaf fullur“. Ég man líka eftir getgátum um að einstakir spilarar væru með „kerfi“ – hvað sem það nú átti að þýða. Svo man ég eftir eldri kollega sem sagði við mig „sumir hafa það, aðrir ekki”. Hann meinti það líklega ekki sérlega vel en hinsvegar hef ég ekki grun um hvar hann er niðurkominn í dag.

Ofangreindar vangaveltur benda til þess að fagið sem um ræðir sé ekki sérlega tækt til hefðbundinnar kennslu. Almættið, andskotinn og áfengi fara nefnilega ekkert tiltakanlega vel í kennslustofum. Reynslan sýnir hinsvegar að hvorki æðri máttarvöld né ólögleg lyf hafa nokkurn skapaðan hlut með kennslu í spuna og jazztónlist að gera. Það er auðvitað hægt að kenna undirstöðuatriði þessa fags eins og hvað annað. Það geta nefnilega allir impróviserað, spunnið eða leikið af fingrum fram. Bara misvel – rétt eins og aðrar mannlegar verur í öðrum greinum. Þekkingin hjálpar í þessu eins og öðru.

Hvert er þá hlutverk skóla í þessu samhengi? Fyrst og fremst að veita upplýsingar, að svipta heimulegheitahulunni af fyrirbæri sem er í grunninn ekkert sérlega flókið – en er um leið nákvæmlega jafn óútskýranlegt og öll önnur list. Þessu hlutverki hefur Tónlistarskóli FÍH sinnt á Íslandi undanfarin 33 ár. Og hverju hefur sú viðleytni breytt? Jú, nánast allir sem starfa við jazztónlist hér á landi í dag eru fyrrverndi nemendur skólans. Án FÍH skólans ættum við ekki Jóel Pálsson, Einar Scheving, Agnar Má Magnússon, Sunnu Gunnlaugsdóttir, Óskar og Ómar Guðjónssyni, Hauk og Ragnheiði Gröndal, Hilmar Jensson, Skúla Sverrisson, Samúel J. Samúelsson og Kristjönu Stefánsdóttur svo einhverjir séu nefndir. Einstaklingar og hljómsveitir annarra stíla á borð við Sigríði Thorlacius, Moses Hightower og Agent Fresco væru sennilega ekki þar sem þau eru í dag. Ég stæði heldur ekki hér, en það var á gangi FÍH skólans sem ég kynntist Eyþóri Gunnarssyni, Tómasi R. Einarssyni og öllum hinum sem hugsuðu líkt en höfðu aldrei hittst. Þar kynntust líka fjölmargir aðrir og kynnast enn. Þar kynntist unga fólkið sem stendur hérna fyrir aftan mig á nákvæmlega sama hátt og við fyrir rúmum þrjáíu árum. Þau, eins og við, fengu fyrst og fremst tvennt í skólanum; upplýsingar og tækifæri til að finna hvert annað. Svo gerðu þau galdurinn sjálf.

Fyrir utan áðurnefndar jazzstjörnur og útskrifaða nemendur hafa fjölmargir sótt FÍH skólann í skemmri tíma, bætt við sig og blandast inn í aðra tónlistargeira. Þetta er í rauninni ekki minna um vert og það er ekki síst í gegnum þetta framlag skólans sem rökstyðja má þá fullyrðingu að hann hafi hækkað standard og breytt landslaginu í íslensku tónlistarlífi, ekki bara hvað varðar jazztónlist heldur á miklu, miklu breiðari grundvelli. Mig langar að nefna sérstaklega tvö mikilvæg framfaraspor tengd skólanum.

Árið 1997 var sett á laggirnar kennaradeild í rymtískri tónlist við Tónlistarskóla FÍH. Hér er um að ræða tveggja ára viðbótarnám við það sem fyrir var í skólanum og teygði sig þá þegar inn á háskólastigið. Markmið deildarinnar er að undirbúa kennara til kennslu í rytmískri tónlist, þ.e. jazzi, poppi og rokki, á víðum grundvelli við almenna íslenska tónlistarskóa. Við kennaradeildina hafa nú stundað nám átta nemendahópar og þeir tæplega 50 nemendur sem lokið hafa náminu starfa margir við kennslu víða um land. Þannig hefur skólinn stuðlað með afgerandi hætti að útbreyðslu kennslu á því sviði sem hann hafði forgöngu um hér á landi. Með fjölgun menntaðra og hæfra kennara fjölgar nemendum í greininni á landsvísu, virðing fyrir faginu eykst og tónlistin sækir fram.

Síðara atriðið varðar námskrármál, en á árunum 2000 til 2010 komu út nýjar námskrár fyrir íslenska tónlistarskóla á vegum menntamálaráðuneytisins. Þar er í fyrsta sinn gert ráð fyrir námi í rytmískri tónlist, það skilgreint ítarlega og lagt til jafns við klassískt tónlistarnám. Þetta var gríðarlegt framfaraspor, framfaraspor sem ekki hefði verið stigið ef Tónlistarskóli FÍH hefði ekki rutt brautina og síðan haft áhrif á námskrárgerðina í gegnum starfsmenn sem tóku þátt í og höfðu mótandi áhrif á stefnuna.

Er þá ekki bara allt fullkomið og frábært í Íslenskri jazzmennt? Nei, það verður það víst seint. Það má lengi bæta og breyta, en stóra verkefnið tel ég vera að koma þessari menntun upp á formlegt og viðurkennt háskólastig. Það má endalaust deila um hvar og hvernig slíkt gerist en þegar horft er á málið úr fjarlægð þá skiptir það kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir nestu máli eru þau sjálfsögðu mannréttindi nemenda á háskólastigi að fá nám sitt viðurkennt sem slíkt. Við höfum til þessa farið erindisleysu til yfirvalda mennta- og menningarmála en þar hlýtur auðvitað ábyrgðin að liggja. Þar ætti að finnast áhugi á að betrumbæta og sækja fram með fag sem er bæði löngu komið á háskólastigið og löngu búið að sanna gildi sitt.

Góðir áheyrendur, aðalpersónan í hverjum skóla er hvorki kennarinn né skólastjórinn og þaðan af síður skólinn sjálfur. Aðalpersónan er nemandinn. Það eru hans hagsmunir sem eiga að ráða öllu öðru fremur og það er deginum ljósara að það eru hagsmunir langt komins nemanda á sviðið rytmískrar tónlistar að nám sem klárlega er á háskólastigi sé viðurkennt sem slíkt. Af hverju hefur menntamálaráðuneytið engan áhuga á málinu? Af hverju teygir Listaháskóli Íslands sig ekki í þessa átt? Það felast möguelikar í samvinnu stofnana, sameiningu stofana, nýjum stofnunum og síðast en ekki síst í viðurkenningu þess sem fyrir er. Sagan og sérfræðingarnir eru nefnilega í Tónlistarskóla FÍH, svo mikið er víst. Frá sjónarhóli nemandans breytir kannski ekki öllu hver leiðin er svo lengi sem nám, umhverfi og aðstæður versna ekki og batna helst. Það sem skiptir máli er að heppileg leið sé fundin og hún farin. Það þarf að gæta þess að allir græði og enginn tapi. Kannski þarf að skera á hnúta eða opna dyr og það hlýtur að vera hlutverk íslenskra mennamálayfirvalda. Ég kalla eftir áhuga og frumkvæði þaðan.

Titill þessa erindis var Jazzmenntun – þversögn eða nauðsyn? Spurningin er auðvitað fáránleg og henni er líka löngu svarað. Jazz og menntun eru samstæður en ekki andstæður, mennt er máttur og kennsla nauðsyn. Jazzmenntun er sem sagt löngu orðin staðreynd, fyrirbæri sem er komið til að vera. Við þurfum að horfa fram á veginn og huga að næstu skrefum, tryggja áframþrónun og viðurkenningu á næsta námsstigi. Þanng höldum við áfram að gera gott betra og þannig búum við í haginn fyrir næstu kynslóðir.

Takk fyrir.