Páll Skúlason – ávarp

25/04/2014

Ávörp

 Góðir gestir og áheyrendur,

Fyrir hönd íslensku UNESCO nefndarinnar býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa fundar við spurninguna Hvað er jazz? Þegar UNESCO ákvað fyrir tveimur árum að gera 30. apríl að alþjóðlegum jazzdegi, þá bjó að baki sú hugsun að jazz væri öðrum listformum fremri í því að fá jarðarbúa til að sameinast í baráttu fyrir betri heimi – heimi þar sem hver þjóð og hver einasta manneskja nyti viðurkenningar og virðingar, ætti sér sína rödd sem fengi að hljóma í sameinuðum kór allra þeirra sem þrá frelsi og frið í heimi þar sem kúgun og niðurlæging hafa ráðið ríkjum alltof lengi.

Hvers vegna er jazzinn talinn vera svona svona öflugt sameiningarafl? Ég held að fyrir því séu þrjár ástæður. Sú fyrsta er söguleg: Jazzinn þróast sem tjáningartæki hinna kúguðu og niðurlægðu, þeirra sem þrá réttlæti og uppreisn æru andspænis ofríki og yfirgangi spilltra afla. Í öðru lagi er jazzinn óendanlega fjölbreytt listform sem hver einasta manneskja getur tekið þátt í að njóta og móta eftir sinni eigin líðan og tilfinningum. Í þriðja lagi slær jazzinn í takt við æðaslátt lífsins sem ólgar í blóði okkar allra og vill brjóta af sér allar hömlur og endurskapa veröldina, jafnvel veruleikann sjálfan, hér og nú.

Er þetta rétt? Er jazzinn þetta frelsandi sameiningarafl sem við þörfnumst til að bylta heiminum til hins betra? Við skulum láta á það reyna! Hér á eftir verða flutt sex stutt erindi og fjögur tónverk.

Ég þakka Tónlistarskóla FÍH fyrir að hafa skipulagt þennan viðburð með okkur í UNESCO nefndinni, ég þakka fyrirlesurunum og hljómsveitinni Gaukshreiðrinu fyrirfram fyrir framlag þeirra.

Hátíð okkar hefst með því að Gaukshreiðrið leiðir okkur inn í heim Jazzins – Gjörið þið svo vel!

 

Páll Skúlason