Hvernig á að leggja fram tilnefningu?

Einstaklingar, stofnanir eða samtök mega leggja fram tilnefningar á Landsskrá Íslands um Minni heimsins.

Ef hið tilnefnda er í umsjá margra, þarf að fylgja með ítarleg lýsing á hverjum hluta þess, hver sé eigandi eða umsjónarmaður hverju sinni. Tilnefningin skal lögð fram sameiginlega í nafni allra hlutaðeigandi og með gögnum sem styðja umsóknina frá öllum sem hlut eiga að máli.

Skráning á Landsskrá Íslands um Minni heimsins hefur enga lagalega eða fjárhagslega þýðingu að órannsökuðu máli. Skráning hefur engin áhrif á eignarhald, umsjón eða notkun efnisins eða heimildarinnar.

Sá menningararfur sem tilnefndur er verður að vera vel skráður, afmarkaður og skilgreindur. Óljósar, almennar eða opnar tilnefningar verða ekki teknar til greina. Varðveislusöfn skulu aðeins tilnefna þær heimildir til innritunar á Landsskrá Íslands sem hafa augljóst gildi fyrir Ísland.

Umsóknareyðublaðið skal fylla út með hliðsjón afLeiðavísi um tilnefningar til skráningar á Landsskrá Íslands og önnur leiðbeiningarrit UNESCO, s. s. http://unesdoc.unesco.org/images/0012/001256/125637e.pdf þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um Skrá UNESCO um Minni heimsins (Memory of the World Register).