Lana Kolbrún Eddudóttir „Jazzinn og útvarpið“

25/04/2014

Ávörp

Lana Kolbrún Eddudóttir

Jazzinn og útvarpið“ – erindi haldið á Alþjóðlega jazzdeginum, í Hörpu 30. apríl 2013

Ágæta samkoma! Til hamingju með daginn!

Saga íslenska jazzins er samofin útvarpinu.

Íslenskt útvarp hóf útsendingar 1930 eða um svipað leyti og jazzinn var orðinn aðal-dægurtónlist hins vestræna heims. Og jazz hefur hljómað í Ríkisútvarpinu svo að segja frá upphafi, framan af reyndar í ómstríðri sambúð við íslenska einsöngslagið og allar sinfóníurnar. Í þessu efni munar öðru fremur um ástríðu eins manns, Jóns Múla Árnasonar, þular, sem var daglegur heimilisgestur útvarpshlustenda í áratugi og elskaði Duke Ellington. Ef Jón hefði verið Wagner-aðdáandi veit ég satt best að segja ekki hvernig íslenska jazzinum í útvarpinu hefði reitt af. En undir hans stjórn frjóvgaði Ríkisútvarpið jarðveginn sem jazzblómin spretta í enn þann dag í dag. Hann kom hlustendum á bragðið – og skildi eftir mikilvæga arfleifð innan veggja þjóðarútvarpsins, nefnilega leyfið til þess að setja jazz á fóninn.

En nú er ég að tala um fortíðina og auðvitað er Jón ekki eini maðurinn sem hefur spilað jazz í útvarpinu. Svavar Gests, Vernharður Linnet, Sunna Gunnlaugsdóttir, Gerard Chinotti, Ólafur Þórðarson. Við erum þó nokkuð mörg. En vandvirkni Jóns og hæfileikar gerðu það að verkum að jazzinn fékk sinn sérstaka sess í útvarpinu. Menn báru svo mikla virðingu fyrir Jóni, útvarpsmanninum snjalla og söngdansahöfundinum fína, að Páll Ísólfsson og sinfóníurnar urðu að gjöra svo vel og gefa eftir og hleypa jazzinum upp að hliðinni á sér, efst í virðingarstigann á tónlistardeildinni. Arfleifð Jóns Múla er sú að jazz er talin fullgild sérgrein í íslensku útvarpi. Það er að segja á gamla útvarpinu, Rás 1.

Jazz heyrist nefnilega ekki á nokkurri annarri útvarpsstöð hérlendis, varla. Þetta er ekki séríslenskur vandi, við þetta verkefni glíma jazztónlistarmenn og útvarpsmenn um allan heim. Hrynræn tónlist, rytmísk, á undir högg að sækja í íslensku útvarpi og playlistastöðvarnar, ég þori nú ekki að nefna þær með nafni, þar er mest leikið það sem kalla mætti loudness, og á lítið skylt við tónlist.

Íslenska smáþjóðin, við kotungarnir, við höfum alltaf verið snoknir fyrir upphefð sem kemur að utan. How do you like Iceland er til í ótal tilbrigðum. Og listamenn eru ómark og ekki frægir á Íslandi fyrr en þeir eru frægir í útlöndum. Það hljómar kannski ókunnuglega í eyrum einhverra, en ein elsta og frægasta starfandi jazzhljómsveit heims, hvorki meira né minna, hún er íslensk. Hún heitir Mezzoforte. Og hvað heyrast lög hennar oft í íslensku útvarpi? Árið 2013? Líklega tvisvar, og í bæði skiptin í jazzþætti pínulitlum á Rás 1. Það er nú allt og sumt. Meira að segja Mezzoforte kemst ekki að í íslenska útvarpinu. Af hverju ekki?

Eigin hljóðritanir Ríkisútvarpsins hafa stöðugt dregist saman á undanförnum árum og áratugum. Því miður. Amk. hvað varðar jazzhátíðirnar. Fyrstu hátíðirnar, RúRek, voru hljóðritaðar frá upphafi til enda, það voru tugir tónleika á hverju einasta ári. Og allt er til ennþá. Að vísu á segulböndum, en það er samt til. Það er ekki búið taka yfir það, eins og mestallt dásamlega jazzefnið sem var búið til í Sjónvarpinu í gamla daga. Þegar stórstjörnur eins og Clifford Jordan og Gunnar Ormslev blésu svart-hvítan hálftíma fyrir afnotagjöldin. Svo var því hent. Svo ekki sé talað um heilu sjónvarpsupptökurnar af Listahátíðartónleikum Benny Goodman í Laugardalshöll. Those were the days. Í dag telst það gott ef Rás 1 má semja við Jazzhátíð Reykjavíkur um svona ferna tónleika.

Og það er stöðugt þrengt að Rás 1. Það er eins og að núverandi stjórnendur ríkisfjölmiðilsins trúi ekki almennilega á útvarpið. Þeir láta jafnvel í það skína að útvarp sé deyjandi miðill. Og hvað gerist ef Rás 1 verður lögð af? Hvaða útvarpsstöð ætlar þá að spila jazz á Íslandi?

Sjónvarpið er svo kapítuli út af fyrir sig. Og ég tala um Ríkissjónvarpið, því ég þekki hinar stöðvarnar ekki nógu vel. Í Sjónvarpinu hefur tónlistin verið úthýst, í mörgum atrennum, nú síðast úr Kastljósinu. Undantekningin er einn og einn þáttur eins og Hljómskálinn. En hvar er Jazzskálinn? Sjónvarpið er líka að svíkja komandi kynslóðir um hljóð og mynd af samtímanum sem það á sannarlega að spegla. Hversu mikið er til með Mezzoforte í sjónvarpinu? Einn konsert kannski? Hvað hefur oft verið kallað á Stórsveit Samma til að gera hálftíma prógram? Frelsissveit Nýja Íslands? Af hverju var Glenn Miller glæsikonsert Stórsveitar Reykjavikur með Nútímamönnum, Borgardætrum, Kristjönu, Bjarna og Þór, ekki drifinn beint upp í sjónvarpssal að lokinni Jazzhátíð? Eða konsertarnir sem Kjartan Valdemarsson, Pétur Grétarsson og Gunnar Hrafnsson settu upp með Kristjönu Stefánsdóttur í Salnum, fjórar dagskrár með Berlin, Gershwin og co? Eða tónleikarnir sem haldnir voru á níræðisafmæli Jóns Múla, og Eyþór Gunnarsson sat við píanóið og sagði allar litlu sögurnar af lögum stjúpföður síns. Af hverju er þetta fólk ekki kallað beint í sjónvarpssal og þessu efni skilað til núverandi eigenda Ríkisútvarpsins, með möguleika fyrir alla framtíðar-Íslendinga að geta horft?

Og það er heldur ekki mikill jazz í blöðunum. Jú það birtast fréttatilkynningar um tónleika og málþing, eins og þetta, en gagnrýnin skrif og upplýsandi sem kosta vinnu, kosta undirbúning og kunnáttu, þau eru á undanhaldi. Hver ætlar að taka það sér að skrifa tónleika- og jazzplöturýni þegar Haddi Linnet er hættur að heyra og sjá?

Og svo komum við að móður allra fjölmiðla í dag, netinu. Líklega er vonlaust að spá fyrir um þær breytingar sem verða á allra næstu árum og misserum í kjölfar þeirrar tækniþróunar. Meira að segja svona gamlir flóðhestar sem ólust upp í svart-hvítu, og höfðu aldrei séð vídeótæki þegar þeir fermdust og ekki séð leikjatölvu fyrir stúdentspróf; meira að segja þeir eru sítengdir við umheiminn og gúggla uppskriftir og rússneskar orðaþýðingar eins og enginn sé morgundagurinn. Öllu á að vera hægt að fletta upp á netinu. En þar höfum við verk að vinna.

Einhver stórfenglegasti menningarauki okkar Íslendinga á nýjum tímum er vefurinn tímarit.is Þar má fletta upp hverju sem er, hafi það einhvern tímann birst á prenti hérlendis. En hvað með útvarp og sjónvarp? Getum við flett upp í þeim sjóðum og þeim söfnum? Svarið er nei. Ríkisútvarpið hefur ekki einu sinni séð ástæðu til þess að hleypa almenningi í tónlistarupplýsingaskrá safnadeildarinnar, stærsta tónlistargagnabanka landsins. Svona á sama hátt og við getum kynnt okkur bækurnar okkar, heima á eldhúsborðinu í gegnum tölvuna og í bókasafnsleitarkerfið Gegni.

Allir útvarps- og sjónvarpsþættirnir sem hafa verið framleiddir um áratugaskeið á Íslandi? Getum við flett upp í þeim? Getum við fengið að horfa á gamalt áramótaskaup og gúggla í leiðinni á 4G símanum að maðurinn við píanóið sé Magnús Ingimarsson. Og að burstaklippti tenóristinn sem reykspólar sólóin eins og Stan Getz, það er Gunnar Ormslev? Og þessi flínki þverflautuleikari sem situr þarna í miðjunni og enginn þekkir lengur í sjón? Nú, hét hann Halldór Pálsson? Hann hlýtur að búa í útlöndum. Getum við flett þessu upp á netinu? Svarið er nei.

Það sem ekki er til á prenti og ekki prentað á neti, hvar á að fletta því upp í framtíðinni? Hvernig á að tryggja aðgengi að handritum útvarps- og sjónvarpsmanna? Öllum viðtölunum? Og við skulum þakka Morgunblaðinu fyrir að hafa snemma á tölvuöld opnað aðgang að sínu efni og m.a. gefið okkur kost á að lesa hin merku viðtöl Ólafs Ormssonar. Ef ekkert stendur á tímarit.is, og ef safnaskráning Ríkisútvarpsins verður aldrei gerð aðgengileg almenningi, hvað verður þá um íslenska jazzsögu? Og hljóðritin? Menningarskylda fjölmiðla, amk. örugglega þjóðarfjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins er að skrá og spegla samtímann. Gallinn er sá að það er ekki hægt að leita í útvarpsefninu, og enn síður í sjónvarpsefninu. Það er ekki leitarbært í dag – og ekki á morgun – og örugglega heldur ekki á næsta ári.

Þarna er verk að vinna. Þessa fjársjóði þarf að leysa úr viðjum. Það er okkar er að sjá til þess að nýjar kynslóðir geti gúgglað íslenska jazzsögu eins og hún leggur sig, þegar hún vill, séð handrit, heyrt hljóð og séð mynd. Takk fyrir!