Hressleiki og sannfæring í þakkargjörð spunans – Nokkur riff í tilefni alþjóðadags jazzins

25/04/2014

Ávörp

Hinn alþjóðlegi dagur jazzins er kærkomið verkfæri til að halda á lofti þremur mikilvægum þáttum sem snerta hvaða tónlist sem er. Þeir eru þátttaka, uppfræðsla og þjálfun og hátíðarhöldin sjálf. Participation, Education og Celebration eins og það útleggst á ensku. Vel heppnaður tónlistarviðburður felur allt þetta í sér.

Þátttaka í tónlist er ekki bundin við að syngja eða spila á hljóðfæri heldur er sá sem heyrir ekki síður þátttakandi. Hann getur verið þátttakandi viljandi eða óviljandi, á meðan sá sem hlustar af athygli er einbeittur þátttakandi.

Segja má að hlutverk tónlistarhátiðar sé að fá hin almennu eyru til að taka þátt í tónlistinni með því að leggja við hlustir. Hina sem búa til tónlistina þarf venjulega ekki að hvetja sérstaklega, en þeir fá þó stundum spurningar um framleiðslu- og geymsluaðferðir, upprunavottun og ýmislegt sem nútímaneytendur vilja vera upplýstir um.

Samhliða því að hvetja fólk til aukinnar hlustunar má segja verið sé að þjálfa það í að heyra, enda oft ekki vanþörf á þegar listamennirnir sjálfir eru venjulega of niðursokknir í eigin gjörninga til að fylgjast með hvort hlustendur séu að meðtaka boðskapinn. Tónlistarhátíðin er því nokkurskonar stefnumótaþjónusta fyrir komandi kærleik milli flytjenda og hlustenda, eða loftpúði í þeim árekstri, allt eftir atvikum. Listamennirnir velta fyrir sér móttækileika hlustendanna, sem ákveða hvar hinn tónlistarlegi görningur skorar á væntingaskalanum.

Allt felur þetta í sér þjálfun þó ólík sé. Á sviðinu standa þeir sem hafa tileinkað sér einhverskonar leikreglur. Gildir þá einu hvort um sé að ræða vingjarnlegt stjórnleysi, strangar tónlistarlegar reglur, eða einhverskonar langsótt tilbrigði við eldri viðmið.

Höfum í huga að í jazzmúsík hafa það oft verið skrítnustu rangstöðumörkin sem hafa breytt gangi leiksins til langframa.

Í jazzinum hafa það oftar en ekki verið þeir sem hafa efast um regluverk síns tónlistarlega umhverfis sem hafa blásið nýju lífi í þessa list augnabliksins. Í húsi jazzins er alltaf verið að dytta að, en ef partíið fer úr böndunum þarf stundum allsherjar meikóver. Látum nægja að segja að endurnýjun sé alltaf mikilvæg þó ekki sé gott að skipuleggja hana fyrirfram eða sjá fyrir úr hverju hún sprettur.

Tónlistin er eins og ónæmiskerfið, hún styrkist af mótlætinu. Þess vegna spyr maður sig reglulega:

Er jazzinn hress?

Maður getur ekki ekki annað en vonað að hann sé amk vel rólfær td þegar kemur að því að hylla vegsemd hans og viðgang á hátíðisdögum.

Vandi fylgir víst hverri vegsemd og þar er engin músík undanskilin þó að jazzfólk gæti með nokkrum rétti bent á að vegsemd í jazzi sé nú varla mælanleg. En það er nú uppgerðarlítillæti því að hvernig er hægt annað en að tala um vegsemd þegar listamaður heldur hópi fólks hugföngnum með því að ryðja úr sér hugmyndaríkum hendingum að því er virðist fyrirhafnarlítið.

Vandinn – ef einhver,  er kannski helstur sá að hlustendahóparnir séu ekki fleiri og/eða stærri. Verkefni hátíðastjórnenda er að búa til eða finna þessa hópa og leiða þá á fund þeirra sem búa yfir boðskapnum.

Því þeir sem spila, trúa. Eða ættu að gera það. Það eru auðvitað til predikarar sem hafa önnur markmið en að opna fyrir manni kraftbirtingarhljómfræði jazzins. Hafa jafnvel sjálfa sig að markmiði frekar en músíkina. Sá sem hlustar og gengst undir þann sáttmála að sitja eða standa eins og tónleikahaldari eða listamaður segir honum og borgar jafnvel fyrir þátttökuna, hann hlýtur að vera að leita að einhverju. Sá sem er í einlægri leit að sannfæringarkraftinum og sækir spunamessuna með opnum huga er með þátttöku sinni ekki einungis að hylla þann sem stendur á sviðinu heldur það sem hann er að gera.  Eða kannski það sem hann ætlar að gera? Hvað hyllum við annars? Tónlistina sjálfa eða fólkið sem flytur hana?

Fæstir þeirra sem fást við tónlist sjá sig beinlínis sem spámenn. Þeir eru nefnilega alltof lítillátir til þess. Í annað sinn nefni ég lítillæti. Áður var það reyndar uppgerðarlítillæti. Það er líklegast óumflýjanlegt að spurningar vakni þegar rætt er um óframfærni annarsvegar og tónlistartrúboð hinsvegar. Átti ekki bara að tala um jazz? En hann er ekki frekar en önnur músík undanskilin tilvistarlegum vangaveltum. Hvað er verið að gera? Hvaða þýðingu hefur þetta? Og ef við spyrjum og efumst- má þá segja að gjörninginn í heild skorti sannfæringarkraft?

Góðu fréttirnar eru þær að það vantar auðvitað sjaldnast sannfæringarkraft. Og sannfæringarvísitalan er illskilgreinanleg. Þeir sem sækja viðburðina verða áfram á höttunum eftir mismunandi upplifunum. Á meðan einn er ekki ánægður fyrr en listamaðurinn liggur örendur á sviðinu þá nægir öðrum að bassasólóið yfirgnæfi ekki samræðurnar.

Sannfæringarkraftur tónlistarinnar er því margslungið fyrirbæri, sem getur hvort sem er eflst eða dvínað í heyranda hljóði.  Jazzinn er kannski tónlistin sem er hvað berskjölduðust fyrir skorti á sannfæringu. Því að þar er gert ráð fyrir því að flytjandinn tali frá hjartanu. Hann er ekki að lesa ritninguna, hann er að leggja út frá henni – eða að hafna henni alfarið –  jafnvel allt þetta í sama laginu.

Samskipti fólks eru jafnan borin saman við tónlistarflutning. Okkur verður tíðrætt um lýðræðið sem felst í því að koma saman og flytja tónlist á jafnréttisgrunni. Við förum mörgum orðum um alþjóðlegt tungumál tónlistarinnar og hvernig hún getur lagt kalda bakstra á bólgurnar í samskiptum þjóðanna. En hér væri líka hægt að fara mörgum orðum um hvernig það frjálsræði er í mörgum tilvikum bundið einræði frummælanda hvers verkefnis. Og ekki alltaf menntuðu einræði. Það eru til sögur úr jazzinum af handalögmálum á tónleikasviðum. Jákvæða hliðin á því er að ekki vantaði sannfæringarkraftinn.

Hún er falleg myndin af því hvernig lýðræðið blómstrar á hljómsveitarpallinum þó að hátíðarhaldarinn vonist í hjarta sínu miklu frekar eftir  borgarlegri óhlýðni á þessum sama palli. Það gerir nú umræðan og skemmtanagildið.

Helstu boðberar jazzinns á Íslandi voru yfirlýstir kommúnistar, sem skildu vel hin nánu tengsl mannréttindabaráttu afrískra ameríkana á 20. öld og hrifust af tónlist  sem var runnin undan rifjum þolenda heimsveldisstefnu Ameríku fyrri alda.

Tónlist sem hefur staðið frammi fyrir svo miklu mótlæti að hún hlýtur að vera komin með ódrepandi ónæmiskerfi.

Kannski erum við í dag að sigla inn í nýja tíma hvað varðar hlutverk tónlistarinnar. Kannski á hún eftir að endurspegla með auknum sannfæringarkrafti afstöðu okkar til tilverunnar og umhverfisins. Vonandi aukast vegsemd hennar og verðleikar með kraftinum sem í henni býr án þess að hún sjálf og þeir sem henni sinna verði vandinn sem þarf að leysa.

Pétur Grétarsson