Ávarp Irinu Bokova, Aðalframkvæmdastjóra UNESCO, í tilefni afAlþjóðlega jazzdeginum

25/04/2014

Ávörp

 Á Alþjóðlega jazzdeginum taka jarðarbúar höndum saman í friði og sátt og deila ástríðu sinni fyrir tónlist í nafni frelsis og sköpunargleði.

UNESCO stóð í þessu skyni fyrir fyrsta Alþjóðlega jazzdeginum árið 2012 í samstarfi við Velvildarsendiherrann og jazzsnillinginn Herbie Hancock.

Jazzinn á rætur að rekja til flókinna og fjölbreyttra menningaráhrifa frá Afríku, Evrópu og Karíbahafi. Hann þróaðist í Bandaríkjunum en er nú snar þáttur í öllum samfélögum heims, er leikinn um heim allan og fólk nýtur hans hvarvetna. Þessi fjölbreytni gerir jazzinn að öflugum hvata til samræðna og skilnings. Í jazzinum hljómar barátta fyrri tíma fyrir reisn og borgaralegum réttindum og hann er á okkar tímum snar þáttur félagslegs sjálfstæðis því hann segir sögu frelsis sem allir geta deilt.

Jazz er eitt magnaðasta tjáningarform 20. aldar og fangar nú þegar anda þeirrar 21. Á tímum breytinga og óvissu er meiri þörf fyrir jazzinn og mátt hans en nokkru sinni fyrr til þess að sameina fólk og efla virðingu þess fyrir sameiginlegum gildum. Einkum þurfa ungir karlar og konur að finna nýjar friðarleiðir sem höfða beint til hjartans. UNESCO er ætlað að styrkja það ferli og nýta sem best menningarlega fjölbreytni heimsins, meðal annars með listmenntun sem hvetur til frumleika og nýsköpunar. Jazzinn teflir fram í tónum vonum okkar og draumum um veröld þar sem virðing, tillitsemi og frelsi verða að veruleika.

Í ár stendur borgin Istanbúl fyrir helsta viðburði Alþjóðlega jazzdagsins en honum er ætlað að endurspegla einstaka sögu borgarinnar þar sem margir menningarstraumar mætast.

Deginum verður fagnað í 24 klukkustundir samfleytt um heim allan með alls kyns viðburðum allt frá Beirút til Peking og Dakar til Ríó.

Alþjóðlegi jazzdagurinn er hátíð draumsins um heim þar sem fólk nýtur hvarvetna friðar og frelsis.

Allir eru hjartanlega velkomnir !

Irina Bokova